Skiljast stera-augndropar út í móðurmjólk?

Spurning:

Sæll.
Er mögulegt að stera-augndropar skilist út í móðurmjólk og geti haft áhrif á barn sem er á brjósti?

Með fyrirfram þökk.
Kveðja

Svar:

Augnlyf eru notuð í litlu magni og staðbundið í augu. Það flýtir ekki fyrir bata að nota mikið í hvert skipti heldur aukast bara líkur á aukaverkunum og að lyfið komist í blóðrásina. Vegna þess að þau lyf sem gefin eru í augndropum eru til staðbundinnar notkunar í auga er unnt að gefa tiltölulega lítið magn af virku efni (lyfinu). Því er lítið sem kemst alla leið í blóðrás sjúklingsins. Hluti af þeim barksterum (bólgueyðandi sterar) sem komast í blóðrásina skiljast út í brjóstamjólkina. Það sem fer út í brjóstamjólkina hefur einhver áhrif á barnið svo ef það er ekki þeim mun nauðsynlegra fyrir móðurina að nota lyfið er ráðlegt að taka það ekki. Það er oft mjög lítið vitað um áhrif lyfja á ungabörn og ekki vert að taka neina áhættu.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur