Skiptir aftursveigt leg máli í meðgöngu og fæðingu?

Spurning:

Kæra Dagný.

Mig vantar að upplýsingar um aftursveigt leg. Getur það haft áhrif á fæðingu? Getur maður ruglað verkjum sem fylgja því við grindargliðnun?

Svar:

Sæl.

Margar konur eru með aftursveigt leg og veldur það sjaldnast nokkrum vandkvæðum á meðgöngu eða í fæðingu þar sem legið sveigist fram þegar það stækkar. Það eiga ekki að fylgja því neinir sérstakir verkir að vera með aftursveigt leg. Hins vegar finna konur oft fyrir togi á böndin sem liggja yfir og í kringum legið og festa það innan í grindina. Það lýsir sér með stingjum og eins konar sinadráttum, sérstaklega við snöggar hreyfingar. Þau óþægindi minnka yfirleitt eða hætta alveg eftir fyrsta þriðjung meðgöngunnar. Ef þú ert í einhverjum vafa skaltu endilega tala við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir