Spurning:
Hæ hæ.
Mig langar til að spyrja ykkur í sambandi við augun á mér. Ég vil taka það fram að ég er með Tourette Syndrome og er með kæki í augunum, s.s. blikka mikið. Á hverjum degi þarf ég að fjarlægja slím úr augunum á mér, stundum þarf ég að toga út heilu lengjurnar af slími, ég veit að þetta hljómar ekki fallega. Svo er ég oft með mikinn þrýsting í augunum. Fyrst hélt ég að þetta væri bara frjókorna ofnæmi en ég er búin að vera svona í u.þ.b. 3.ár, ég var ekki svona slæm, þetta versnar bara og versnar. Sjónin er ekki einsog hún var heldur, ekki jafn góð, ég sé í rauninni vel en það er einsog ég nái ekki að fókusa nógu vel. Svo er einsog himnan á öðru auganu sé eitthvað laus, er samt ekki viss, kannski er það bara eðlilegt. Fæ oft skyndilega kláða líka. en spurningin er þessi: hvað getur verið að mér í augunum? takk fyrir góða síðu.
Svar:
Komdu sæl.
Líkt og þú lýsir eru ýmsir augnkækir sem fylgja Tourette syndrome, s.s. að blikka augunum. Þessi viðbótareinkenni sem þú lýsir eru býsna flókin, en þú lýsir kláða, þrýstingi, slímmyndun, sjónmissi og fókuseringartruflunum og slímhimnubjúg (laus himnan). Taka skal fram að það er ekki einfalt að gera sér grein fyrir hvað sé á seyði nema með því að skoða augun vel. Eftir lýsingu þinni tel ég þó talsverðar líkur á því að þú þjáist af svokölluðu „mucus fishing syndrome“, a.m.k að hluta til. Þennan sjúkdóm mætti kannski kalla „slímveiðisýki“ upp á íslensku. Hún lýsir sér ósköp einfaldlega með því að viðkomandi finnur þörf hjá sér (kannski vegna kláða/óþæginda) að toga í slím í augnkrókunum. Það að fara með fingur í augnkrókana og toga út slím ertir slímhúðina í augunum, sem síðan býr til meira slím auk þess sem kláði og ertingin aukast í auganu. Þarna verður því til vítahringur og einskonar kækur sem fólk á erfitt með að gera sér grein fyrir að það sé haldið. Þessi kækur er einmitt ekki óalgengur hjá Tourette sjúklingum en finnst raunar miklu víðar. Með því að fara með fingur upp í auga eru bornar bakteríur í augað sem auka á ertinguna, auk þess sem frjókorn geta borist á auðveldan hátt á slímhúð í auganu og valdið ofnæmisviðbrögðum.
Fylgstu með sjálfri þér yfir daginn og teldu hversu oft þú grípur til „slímveiðanna“. Til að hjálpa upp á sakirnar gætirðu þvegið augun upp úr heitu vatni á hverju kvöldi með hreinum þvottapoka. Einnig hvet ég þig til að nota gervitár, sem fá má án lyfseðils í apóteki.
Gangi þér vel!
Jóhannes Kári.