Spurning um lyfið Enbrel?

Spurning:
Mig langar að spyrja um gigt. Ég var greind með slit- og vefjagigt fyrir 15 árum síðan en er alltaf að versna og er ég búin að fá 3 slæm köst frá áramótum og þetta síðasta var mjög slæmt og hefur verið í 10 daga og er ég enn mjög þreytt og hef enga orku. Mig langaði að spyrja ykkur hvort ég gæti verið komin með önnur afbrigði af gigt? Ég er búin að vera slæm í öllum skrokknum og þá sérstaklega í upphandleggjum og fótum, mér finnst ég ekki bera sjáfa mig, ligg bara í rúminu, en þetta er aðeins að ganga til baka. Ég var ekki með neinn hita, ég tek inn gigtarlyfið Relifex 500mg og líka Neurontin 600mg til að ná dýpri svefni og tek líka Ibúfen 400mg. Ég er einnig á kvíðalyfinu Seroxat. 
Mér finnst ömurlegt þegar öll gleði er farin af manni, ég sem hef alltaf verið mjög kát og glöð, en það er ekki í dag, finnst bara enginn tilgangur með þessu er alltaf slöpp, er dæmdur öryrki og hef verið það síðan 2000. Hef farið í meðferð á Reykjalund og var það mjög gott, er einnig í sjúkraþjálfun 2 í viku hjá Styrk hjá alveg yndislegri stúlku. 
Mig langaði einnig að spyrja ykkur um lyfið Enbrel. Ég fétti frá Bandaríkjum að það væri notað við gigt en ekki bara liðagigt, hvernig er það hér? Er í sambandi við íslenska stúlku sem flutti út fyrir ári síðan og var hún vitlaust greind hér heima en fékk rétta greiningu og er komin á þetta lyf og er allt önnur. 
Jæja ég gæti spurt um svo mikið í sambandi við þetta en ég ætla að láta þetta duga í bili.
P.S. fór í blóðprufu síðasta föstudag og bað heimilslækninn að taka líka gigtarpróf þannig að ég bíð eftir niðurstöðum úr því. Með kærri kveðju, ein sem er orðin ansi þreytt

Svar:
Lyfið Enbrel er eingöngu skráð til notkunar við liðagigt, psoriasis liðagigt, hryggikt og psoriasis á Íslandi, ennþá alla vega.  Ég get ekki svarað þér hvort þú gætir verið með einhverja aðra gigt en þú varst greind með áður. Það er lækna að skera úr um það.  Ég bendi þér hins vegar á að einungis sérfræðingar í gigtlækningum og húðsjúkdómum mega ávísa Enbrel. Ég tel því að ef þú hefur áhuga á að fá upplýsingar um það hvort Enbrel gæti gagnast þér, ættir þú að leita til gigtarlæknis. Þeir eru best í stakk búnir til að greina milli hinna ýmsu sjúkdóma sem falla undir gigtarhugtakið og að beita þeim kostum sem bestir eru hverju sinni við þeim.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur