Spurning:
Ég er forvitin um sveppasýkingu í meltingarvegi eða Candida eins og það er stundum kallað í útlöndum. Hef ekki fundið neitt um það hér á vefnum. Hver eru einkennin og meðferðin?
Svar:
Sæl.
Sveppasýking í meltingarfærum af völdum Candida sveppsins verður oftast í munni, vélinda og á húðsvæði við endaþarmsopið. Slík sýking er ekki óalgeng hjá ónæmisbældum einstaklingum, s.s. sjúklingum með alnæmi og sjúklingum á ónæmisbælandi lyfjameðferð, t.d. karabbameinssjúklingum og sjúklingum á sterameðferð, t.a.m. sterainnúðameðferð hjá astmasjúklingum. Slíkar sýkingar geta þó komið hjá heilbrigðum einstaklingum. Sveppasýking í munnholi og vélinda getur valdið kyngingarerfiðleikum og særindi við kyngingu og brjóstverkjum. Sveppasýking við endaþarm getur valdið kláða og særindum. Sveppasýking í maga, smáþörmum og ristli er afar sjaldgæf. Sumir halda því fram að sveppasýking í meltingarfærum valdi ýmsum kvillum, s.s. mígreni, fæðuóþoli, útbrotum, ofnæmi ofl. en hefur það aldrei verið sannað og verður að teljast órökstudd kenning. Ýmis sveppalyf eru notuð við ofangreindar sýkingar í töfluformi, mixtúru eða kremáburður.
Kveðja
Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum