Tognun hjá 14 ára íþróttamanni

Spurning:

Sæll Högni.

Sonur minn er 14 ára og hefur undanfarnar vikur haft verki í vinstra fæti, hann lýsir því sem sárum verk í vöðvanum. Þetta ágerist við hreyfingu og átök, en minnkar eða hverfur ef hann reynir ekki á sig um tíma. Hann er íþróttamaður og æfir körfubolta af kappi og stundar snjóbretti á veturna, en hefur verið í fótbolta á sumrin. Hann er mjög stór og hefur stækkað ört, er orðinn 184 cm og stækkar enn. Hann er grannur og hefur alla tíð verið hraustur og laus við kvilla og vandamál tengd líkama og hreyfingu. Hann heldur að þetta hafi byrjað þegar hann datt á snjóbretti, en það hefur aldrei sést mar eða neitt á fætinum útvortis. Þetta háir honum mikið því hann er orðinn haltur eftir 30 mín. æfingu í körfu, þótt hann hlífi sér við erfiðustu æfingunum. Við höfum reynt að halda honum frá íþróttum (14 daga) en þetta byrjaði aftur um leið og hann fór að reyna á sig.

Við höfum talið að þetta gæti tengst hröðum vexti beina og vöðva, en höfum samt áhyggjur af að þetta gæti átt sér alvarlegri orsakir.

Hvað telur þú?

Svar:

Af lýsingu ykkar að dæma tel ég líklegast að eftirfarandi hafi gerst, þið gleymið reyndar að lýsa nákvæmlega í hvaða vöðva hann finnur til (t.d í kálfa, framan á læri, aftan á): Strákurinn hefur sennilega tognað í „vöðvanum“ þegar hann datt á snjóbrettinu forðum og hefur þá rifið vöðvaþræði og svæðið bólgnað upp. Það getur vel gerst án þess að nokkuð mar eða greinileg ytri ummerki komi fram. Sennilega hefur hann síðan ekki leyft meiðslunum að jafna sig nægilega vel áður en hann hóf æfingar aftur. Þegar það er gert og byrjað er að leggja álag á skaddað svæði of snemma getur áverkinn eða tognunin sem hér er lýst orðið að langvarandi álagsmeiðslum. Þessu ferli lýsi ég nokkuð vel í grein minni Almennt um íþróttameiðsli í smásjánni Íþróttir og þjálfun á Doktor.is. Ef meiðslin eru búin að vera í lengri tíma er aðeins eitt til ráða, leitið ti læknis og fáið tilvísun í sjúkraþjálfun og fáið ráðleggingar sjúkraþjálfara varðandi æfingaálag, styrkjandi æfingar, teygjuæfingar, kælimeðferð, hlífar og aðrar aðgerðir sem geta hjálpað honum að ná bata þannig að hann geti farið að æfa af kappi aftur. Það versta sem hann getur gert er að halda áfram að pína sig hálf haltur á æfingum og viðhalda þannig sársauka og bólguferlinu í fætinum, þá geta meiðslin orðið varanleg og háð honum í framtíðinni. Því fyrr sem rétt greining og meðferð á íþróttameiðslum á sér stað því betri verður árangurinn.

Högni Friðriksson, sjúkraþjálfari