Tourette og athyglisbrestur 15 ára?

Spurning:
Góðan daginn.
Ég er í smá vandræðum og vantar að fá ráðleggingar. Ég á 15 ára son sem greindur er með tourette og athyglisbrest og það gengur þokkalega með tourette ef ég passa að hafa hann ekki undir neinu álagi, en það er nú stundum ekki hægt að komast hjá álagi og þá eru kækirnir sem þessu fylgir svolítið miklir.
En svo er það athyglisbresturinn sem er honum nú erfiðari og hann spyr í sífellu hvort ekki sé eitthvað hægt að gera við því. Þetta tekur mjög á hann og að sjálfsögðu aðra heimilismeðlimi. Hann er núna kominn í sérbekk þar sem eru færri börn og fleiri kennarar og er ánægður með það og finnst hann nái betur að læra, en það fer annsi illa með hann að gleyma öllu og það bitnar nú mest á heimilislífinu. Hann var áður á ritalín og mér fannst það nú engin töfralausn, kannski hjálpaði eitthvað en ekki nóg.Við prófuðum að gefa honum lecithin og hann vill meina að það hjálpi eitthvað.
En mig langar til að vita hvort þið eigið einhver góð ráð handa okkur til að prufa. Við búum í Danmörku og vildum gjarnan prófa eitthvað nýtt en vitum ekki hvað það gæti verið (ég hef að sjálfsögðu fengið fullt af ráðum en ekki frá fagfólki).
Svo er eitt annað sem mig vantar að fá ráðleggingar um, en það eru unglingabólurnar svokölluðu. Hann er með frekar mikið af þeim og vill að sjálfsögðu að þær hverfi bara. Það eina sem ég hef gert í því er að láta hann hreinsa húðina með hreinsivatni og að sjálfsögðu vatninu úr krananum, en ég vildi gjarnan fá að vita hvað er meira hægt að gera við því. Vonandi getið þið gefið mér einhver góð ráð þótt ég eigi nú kannski ekki von á neinni töfralausn.
Með fyrirfram þökk.
Áhyggjufull Mamma

Svar:
Þar sem drengurinn hefur greinst bæði með Tourette og athyglisbrest tel ég að hann þurfi að fara til barnalæknis sem hefur góða þekkingu á þessum tveimur greiningum. Hann finnur svo út hvaða lyf koma til greina og prófar á honum hvert þeirra er honum heppilegast. Hugsanleg væru lyf eins og Conserta og einnig Strattera sem ég hef heyrt að að virki stundum vel á Tourette án þess að auka kækina. Að því er varðar námið í skólanum og heimanámið eru allmörg atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga og fylgja eftir. Þetta varðar fyrirmæli, skipulag, vinnulotur og fleira sem ég tel upp í Ofvirknibókinni. Þar eru ráðabankar fyrir kennara, foreldra og þann sem er með fvirkni /AMO/ADHD.Einnig vil ég benda á bókina Tígurinn taminn sem Tourette-samtökin þýddu og gáfu út. Þar er mikið af leiðbeiningum og ráðum fyrir nemendur sem eru bæði með ADHD og Tourette og raunar margt fleira.Bestu kveðjur – Ragna Freyja