Tregar hægðir hjá 5 mánaða?

Spurning:
Halló. Ég er tveggja barna móðir, yngri sonur minn er 5 mánaða og eingöngu á brjósti. Hann fékk RS vírus og er svona nokkurn veginn að komast upp úr því, en hægðirnar valda mér áhyggjum. Hann var alltaf með venjulegar fljótandi hægðir en nú tekur hann uppá því að stoppa að hafa hægðir stundum í 2 vikur orðið. Þetta byrjaði að gerast eftir að hann fekk einu sinni sýklalyf en hann er löngu hættur á þeim. Þetta er 3 skiptið sem hægðir stoppa. Hvað getur maður gert fyrir barnið til að hjálpa? Hann er stundum óvær og herpir stundum magann.
Ein áhyggjufull móðir

Svar:

Hafi barnið tregar hægðir getur það bent til að hann sé e.t.v. ekki að fá alveg nægan vökva og að þú þurfir að gefa honum brjóst oftar og lengur í einu. Brjóstamjólkin er hægðalosandi þannig að ef hann er duglegur að drekka og fær eins oft og mikið og hann þarf þá ættu hægðirnar að komast í lag á 2-3 vikum. Ef ekki gætir þú prófað að gefa honum aðeins sveskjumauk og hafraseyði – eina til tvær teskeiðar á dag – hann er jú kominn á þann aldur að honum á ekki að verða neitt meint af því. Svo líður einnig að þeim tíma að hann megi fara að fá fasta fæðu og trefjarnar í fæðunni örva þarmana og koma hægðunum í gang, þ.e. fái barnið nægan vökva með. Oft getur verið gott að strjúka magann mjúklega í hringi (klukkugang) til að örva þarmahreyfingarnar þegar hann herpir sig og líður illa. Innhellilyfin notar maður ekki fyrr en allt er komið í þrot en ef ekkert gengur og hann er bara stopp og stíflaður getur þurft að grípa til þeirra. Ráðfærðu þig þó við barnalækni eða lækni á heilsugæslustöðáður en þú grípur til þeirra ráða.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir