Spurning:
Sæl.
Ég hætti að reykja fyrir 9 mánuðum og hef notað nicorette tungurótartöflur síðan, ég hef verið að taka 20-30 mg á dag hver tafla er 2 mg.
Er þetta óhollt? Ef svo er hvernig þá? ég hef verið að heyra um fullt af fólki sem er búið að nota allskonar nikótínvörur í mörg ár, hvaða áhrif getur langvarandi notkun þess haft?
Það eina sem hefur hrjáð mig er hiksti og stundum brjóstsviði en hvorugt endist meira en 5 mínútur eftir að taflan hefur leyst upp í munninum.
Það væri frábært ef þið gætuð komið með ítarlegt svar um hvað það er sem nikótín eitt og sér gerir (kostir og gallar), ég hef verið að leita á vefnum og jafnvel spurt í apótekum en ég hef ekki enn fundið svar sem ég er sáttur við.
Svar:
Sæll.
Til hamingju með að vera hættur að reykja.
Þegar fólk hættir að reykja þarf það oft hjálparhellu til að komast yfir erfiðasta hjallinn og brjóta upp mynstrið milli fíknar og vana. En sá sem reykir af sterkri fíkn hefur fremur ástæðu til að nota nikótínlyf. Sá sem reykir meira af félagslegum og sálrænum ástæðum. Það er rétt hjá þér að sumir sem kjósa að nota nikótínlyf eiga erfitt með að losna úr viðjum þeirra. Það getur þurft að trappa niður nikótínlyfin og venja sig af þeim eins og af tóbakinu. Það er þó alltaf betra að nota nikótín en að falla aftur í tóbaksneyslu. En eins og þú sérð á eftirfarandi staðreyndum þá er ekki æskilegt að neyta nikótíns í neinu formi til lengri tíma og til að losna úr viðjum nikótínfíknarinnar þarf einnig að ná sér út úr notkun nikótínlyfjanna. Því ráðlegg ég þér að fara að huga að því að trappa nikótínnotkunina niður. Þér er velkomið að hafa samband við Ráðgjöf í reykbindindi (800-6030) til að fá frekari aðstoð og stuðning við að losna undan viðjum nikótínfíknarinnar.
Varðandi kosti og galla nikótíns, þá er eini kosturinn sá að nikótín er hreint, náttúrulegt efni. En gallarnir eru margir. Nikótín hefur margvísleg áhrif á líkamsstarfsemina, en samkvæmt ritinu ,,Tóbak” sem gefið var út af Krabbameinsfélagi Reykjavíkur og Tóbaksvarnarnefnd í september 1998, þá eykur nikótín hjartslátt um 15-30 slög á mínútu, þrengir slagæðar, ekki síst í höndum og fótum, og hækkar blóðþrýsting. Nikótín ruglar hraða efnaskipta í líkamanum og minnkar matarlyst þannig að tóbaksnotendur eru stundum undir kjörþyngd. Þegar þeir hætta síðan tóbaksneyslu kemst óregla á líkamsþyngd og þá geta fyrrverandi reykingarmenn lent í áhættuhópi fyrir offitu. Nikótín eykur munnvatnsrennsli og slímrennsli í nefi og berkjum. Samdráttur í innyflum eykst og hægðir ganga hraðar fyrir sig. Saltsýrumyndun í maga eykst nokkuð. Öndun örvast og sömuleiðis svokölluð uppsölumiðstöð í heilastofni. Í heilanum veldur nikótín hækkun á flestum heilaboðefnum, t.d. dópamíni sem skapar vellíðunarkennd og eykur fíknibindingu. En nikótín er mjög vanabindandi efni og gerir menn háða tóbaki. Nikótín er þannig bein forsenda þess að tóbak er reykt eða notað á annan hátt.
Með kveðju,
Jóhanna S. Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Ráðgjöf í reykbindindi.