Upplýsingar um snertilinsur

Spurning:

Sæll.

Ég er 16 ára og nota gleraugu. Mig hefur í mjög langan tíma langað að fá mér linsur en ég er rosalega rög við það. Þá er ég líka hrædd um að það sé sárt og mikið vandamál að byrja að nota linsur. Kærastinn minn notar linsur (íþróttalinsur). Þegar hann fékk þær fyrst var það eins og að vera með sandkorn í auganu. Hann sagði mér að hann hefði viljað henda þeim en varð að nota þær vegna þeirrar íþróttar sem hann stundar.

Ég hef heyrt að nýjustu linsurnar séu miklu mýkri heldur en þessar sem hann notar og að maður fyndi varla fyrir þeim nema fyrsta daginn eða svo. Er þetta rétt? Svo var líka annað, þarf ég að fara til augnlæknis eða er nóg að fara bara í Gleraugnaverslunina Augað og fá þær þar??

Kærar þakkir.

Svar:

Sæl og blessuð.

Snertilinsur hafa verið til í fjölda ára og eru góður valkostur fyrir marga.

Kosturinn er auðvitað mestur fyrir þá sem gleraugu hamla, svo sem íþróttamenn og fólk sem stundar vinnu úti, svo sem sjómenn. Það eru hins vegar nokkur atriði sem verður að athuga áður en byrjað er að nota linsur.

1. Fara þarf til augnlæknis. Hann þarf að skoða augu þín og kanna hvort þær henti þér.
2. Augnlæknirinn gefur þér gleraugnavottorð sem þú ferð með til þess sem mátar linsurnar. Biddu augnlækninn um að setja styrk linsanna á gleraugnavottorðið, því hann er ekki sá sami og gleraugnastyrkurinn.
3. Linsurnar þarf sem sagt að máta á þig eins og föt. Síðan þarf að prófa linsurnar, sýna þér hvernig á að annast þær, meðhöndla þær og setja þær á augun. Þetta kemur yfirleitt með tímanum – þú þarft að vera þolinmóð. Fræðsla um linsurnar er mjög mikilvæg og nauðsynlegt að þú farir vel eftir því sem ráðlagt er.
4. Linsurnar eru orðnar margvíslegar nú á dögum, daglinsur, mánaðarlinsur, litaðar linsur, silikonlinsur o.s.frv. Sá sem útvegar þér linsurnar getur gefið þér bestu upplýsingarnar um hverjar myndu henta þér. Það eina sem er sameiginlegt með öllum linsum er: Aldrei sofa með linsur, jafnvel þótt framleiðandi linsanna fullyrði að það sé í lagi. Alvarlegustu fylgikvillar linsanna koma þegar fólk sefur með linsur.

Bestu kveðjur og gangi þér vel.
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.