Vaxtarhormón fyrir karl milli 40 og 50 ára

Spurning:
Ég greindist fyrir nokkrum árum með heiladingulsæxli,og tek einu sinni í viku Dostinex o,5 mg x 2. Nú nýlega kom fram lækkun á vaxtarhormóni og ég fór aftur í blóðprufu og bíð niðurstöðu. Þessi beiðni til míns sérfræðings um athugun kom frá mér vegna síþreytu, þó hef ég orðið að sprauta mig hálfsmánaðarlega með testósteron depot 250 mg/ml. Hvað þýðir lækkun á vaxtarhormóni fyrir karlmann sem er milli fertugs og fimmtugs og er einhver meðferð? Ég bíð svara frá mínum sérfræðingi, en allar upplýsingar eru góðar.

Svar:
Meðferð við skorti á vaxtarhormóni er til. Gefið er vaxtarhormón (sómatrópín), sem er framleitt með hjálp baktería með erfðatækni. Lyfinu er sprautað daglega undir húð. Ef sjúkdómurinn byrjaði á fullorðinsárum skal ástæðu skorts á vaxtarhormóni rekja til sjúkdóms í undirstúku eða heiladingli. Einnig verður skortur á a.m.k. einu öðru hormóni að hafa verið greindur (prólaktín undanskilið) og uppbótarmeðferð við þeim skorti verður að vera hafin, áður en uppbótarmeðferð með vaxtarhormóni hefst.
Hjá fullorðnum jafnt sem börnum viðheldur sómatrópín eðlilegri líkamssamsetningu með því að draga úr útskilnaði köfnunarefnis og örva vöxt beinagrindar og vöðva, auk þess sem það eykur fitusundrun. Skortur á vaxtarhormóni veldur minnkuðu rúmmáli plasma (blóðs) og utanfrumuvökva. Skorturinn getur leitt til beinrýrðar minnkaðs vöðvakrafts og líkamlegs þreks.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur