Vefjagigt og líkamsrækt

Fyrirspurn:

Mig langar til að spurja um vefjagigt og líkamsrækt, ég er með vefjagigt og stunda líkamsrækt 4-5 sinnum í viku. Reglulega verð ég svo eftir mig eftir að hafa verið í ræktinni að ég finn alls staðar til og það tekur mig allan daginn að jafna mig, þess á milli er ég fín og allt gengur vel. Er þetta eðlilegt? Eitt enn, reglulega er ég líka mjög máttlaus og skortir allan kraft í leikfiminni, mér finnst þetta svo skrýtið því að þetta kemur eins og í tímabilum stundum er ég mjög kraftmikil og á öðrum tímum mjög máttlaus. Er skert aflt í vöðvum þekkt sem afleiðing vefjagigtar?

Aldur: 42

Kyn: Kvenmaður

Svar: 

Sæl,

Vöðvaþreyta, vöðvaverkir, vöðvastirðleiki, vöðvaslappleiki, verkir í liðum og mikil almenn þreyta getur verið það sem vefjagigtarsjúklingar búa við.  Það er mjög gott að þú skulir stunda reglulega líkamsrækt, en að sjálfsögðu getur maður verið misjafn frá degi til dags og ég tala nú ekki um þegar um undirliggjandi sjúkdóm eins og hjá þér er um að ræða. Það er til heilmikið lesefni um Vefjagigt inná Doktor.is sem ég hvet þig til að kynna þér, notaðu leitina og "vefjagigt" en ég ætla að láta hér fylgja tengil inná eina góða grein, skrifuð í fyrra af Sigrúnu Baldursdóttur, hjúkrunarfræðingi.

Bestu kveðjur og gangi þér allt í haginn,

Unnur Jónsdóttir,

Hjfr. og ritstjóri Doktor.is