Veikindi eftir getnað – hafa þau áhrif á fósturvísi?

Spurning:

Sæl Dagný!

Ég hef skoðað heimasíðuna ykkar, Doktor.is í krók og kima og er mjög ánægð með hana. Sérstaklega finnst mér þið svara spurningum lesenda mjög fagmannlega og því ákvað ég að senda þér eina. Ég var að uppgötva að ég er ófrísk í fyrsta sinn, komin um sex vikur á leið. Ég tel mig vita nákvæmlega hvenær getnaður varð því ég hef alltaf fundið fyrir egglosi. Ég tók eftir því að rétt eftir getnað varð ég veik. Þetta voru ekki beint sterk viðbrögð en ég fékk smá hita, kvef og hálsbólgu. Veikindin stóðu mjög stutt, bara þrjá daga og þá var ég orðin vel hress aftur. Reyndar er ég ekki vön að jafna mig svona hratt á flensum þannig mér fannst þetta svolítið skrýtið. Nú þegar ég veit að ég varð ólétt þarna fór ég að hugsa um hvort þetta væru ónæmisviðbrögð við fósturvísinum sem varð þarna til og hvort þetta sé algengt. Ég hef líka svolitlar áhyggjur af því að þetta geti hafa skaðað fóstrið. Hvað finnst þér um þetta? Er ég að kannski að tengja saman óskylda atburði?

Kær kveðja,
Líffræðinemi

Svar:

Sæl.

Þegar maður er að læra líffræði og aðrar skyldar greinar koma manni ólíklegustu tengingar í hug. Það verður að teljast næsta ólíklegt að þarna hafi verið um ónæmisviðbrögð gegn fósturvísinum að ræða. Hafi svo verið hefur baráttan greinilega orðið fóstrinu í vil úr því það er enn á sínum stað. Mér finnst líklegra að þú hafir einfaldlega fengið smá kvefpest en verið það vel líkamlega stödd að ráða bara hratt við hana. Kvef skaðar ekki fóstrið svo þú skalt hætta að hafa áhyggjur (þótt það sé reyndar afskaplega eðlilegur partur af þessum ferli öllum).

Gangi þér bara vel áfram.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir