Spurning:
Sæl.
Af hve mikilli ákefð og hve háum púlsi ætti ég að vera til að vera viss um að ég sé að brenna fitu?
Með fyrirfram þakklæti.
Svar:
Sæl.
Öll hreyfing brennir fitu. Ef þú æfir af mjög mikilli ákefð eru líkur á að þú endist stutt í einu og því er oftast betra að æfa með miðlungs ákefð til að geta haldið lengur á fram og því brennt fleiri hitaeiningum og hærra hlutfalli af fitu.
Ef þú ert í góðu formi getur þú æft svokallaða „Interval þjálfun“ en eitt form af þess konar þjálfun er þannig að þú hleypur af miklum krafti í 2 mínútur og gengur svo í eina mínútu. Þú endurtekur þetta svo aftur og aftur í 20-30 mín. Mikilvægt er að hita upp áður t.d. með 5 mín. röskri göngu og kæla niður í lokin á sama hátt. Skv. nýjustu rannsóknum er þessi teg. þjálfunar talin vera afar góð leið til fitubrennslu en er í flestum tilfellum of erfið fyrir byrjendur. Hjartsláttartíðni er einstaklingsbundin en þumalfingursreglan er að æfa á 65-80% af hámarkspúls, sem er 220 mínus lífaldur.
Að lokum vil ég nefna að þú brennir alltaf mest og færð mestu þjálfunaráhrif og árangur með því að æfa á mestri ákefð sem þú ræður við og getur haldið út í 25-30 mín í senn. Best er að stunda þjálfun daglega í 30 mín rétta samsetningu af styrktarþjálfun fyrir alla helstu vöðvahópa líkamans, þolþjálfun og liðleikaþjálfun.
Gangi þér vel.
Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari