Xatral, Klófen og blöðruhálskirtilsvandamál

Fyrirspurn:

Spurning varðandi lyfið; klófen-L , ég er að taka 100 mg einusinni til tvisvar á dag við slitgigt.

En ég er líka með stækkun á blöðruhálskirtli og krónískar bólgur og er oft slæmur af því spurningin er.

a) Er líklegt að bólgueyðandi lyf eins og klófen-L  virki vel það líka, og gæti þá verið til bóta fyrir mig að taka tvær á dag þegar ég er slæmur en ég tek líka Xatral uno við þeim kvilla.

b) Eru einhver neikvæð áhrif af Klófen-L varðandi blöðruhálskirtils vandamálið.

Aldur:62

Kyn:Karlmaður

Svar:

Sæll.

Meðferð við stækkuðum blöðruhálskirtli getur verið nokkuð misjöfn, allt eftir orsökum og eðli kvillans. Stundum er orsökin bakteríusýking sem veldur bólgunum en oftar er ekki um að ræða neina sýkingu. Þegar um króníska stækkun er að ræða, þ.e. kvillinn varir í lengri tíma eru notuð lyf sem blokka svokallaða alfa adrenerga viðtaka og slaka þannig á sléttum vöðvum líkamans. Með því móti er dregið úr spennu sem einkennir stækkaðan blöðruhálskirtil. Xatral verkar á þennan hátt.

Klófen inniheldur diclofenac sem er bólgueyðandi lyf en verkar á annan hátt en Xatral og dregur úr myndun prostaglandína og annara bólgumiðlandi efna í líkamanum. Þar sem stækkaður blöðruhálskirtill er fyrst og fremst bólgur er það vissulega þekkt að diclofenac og önnur sambærileg lyf dragi úr einkennum kvillans. Ef þér finnst Klófen vera að slá á einkennin og þolir lyfið vel m.t..t. aukaverkanna tel ég að þú ættir að nýta þér það og prófa að bæta einni töflu við þegar þú ert slæmur, líkt og þú nefnir. Ef það virkar til lengdar hjá þér ættirðu að nefna það við lækninn þinn sem þá myndi hugsanlega ávísa breyttum skömmtum af Klófen fyrir þig.

Þórir Benediktsson, lyfjafræðingur