Það eru til fjölmargar leiðir til megrunar sem margar hverjar fela í sér kúra með loforðum um skjótan árangur. Það er samt sem áður þannig að lykillinn að árangursríkri megrun er að borða hollan mat í hæfilegu magni og stunda reglulega líkamsrækt. Þú þarft að gera varanlega breytingu á lífsháttum þínum ef þú vilt ná af þér kílóum og halda í þann árangur sem þú nærð.
Hér koma 6 ráð sem gott er að hafa í huga
Efnisyfirlit
1. Ákvörðun til lífstíðar
Vertu viss um að þú sért tilbúin að gera breytingar á lífsstíl þínum til frambúðar og að þú gerir þær á réttum forsendum. Enginn annar getur gert þessar breytingar fyrir þig. Stuðningur þinna nánustu er af hinu góða en utanaðkomandi þrýstingur getur virkað neikvætt. Þú verður að gera breytingar á mataræði og hreyfingu fyrir sjálfan þig og engan annan.
Tímasetningin getur skipt höfuðmáli og áður en þú ferð af stað er gott að skoða hvort einhver persónuleg vandamál eru til staðar sem gætu sett þig útaf laginu. Það krefst mikillar andlegrar og líkamlegrar orku að breyta gömlum vana. Ef þú ert að glíma við stærri vandamál t.d. varðandi fjárhag, makasamband eða önnur fjölskyldumál er gott að byrja á því að koma þeim málum í farveg áður en farið er af stað í að gera stórar lífsstílsbreytingar.
2. Fáðu stuðning
Þú þarft að taka sjálf/ur ábyrgðina til að ná árangri en það þýðir samt ekki að þú þurfir að gera þetta alein/n. Leitaðu eftir þeim stuðningi sem þú þarft og vilt hjá fjölskyldu, vinum og fagfólki.
Veldu þér stuðningsaðila sem þú treystir og veist að munu hvetja þig. Veldu einstaklinga sem eru tilbúnir að hlusta á þig og þínar hugmyndir, áhyggjur og skoðanir. Mörgum finnst gott hafa æfingafélaga. Stuðningsaðilinn þarf fyrst og fremst að bera virðingu fyrir þér og þeim breytingum sem þú ætlar að gera á þínum lífsstíl og hvetja þig áfram.
3. Settu þér raunhæf markmið
Það sem skiptir mestu máli þegar þú setur þér markmið um breyttan lífsstíl er að þau séu raunhæf og að þú hafir trú á því að þú getir náð þeim. Það er einnig mikilvægt að markmiðin séu mælanleg.
Við skiptum markmiðum gjarnan upp í tvo flokka:
- Skammtímamarkmið: Þau þurfa að vera það erfið að þú þurfir að hafa fyrir þeim en ekki svo erfið að þú gefist upp á þeim. Markmið til skemmri tíma eiga að snúast um þær breytingar sem þú þarft að gera til að bæta heilsu þína og líðan. Einnig þarftu að setja þér markmið varðandi þann árangur sem þú vilt ná. Vertu nákvæm/ur og mundu að setja mælanleg markmið. Skammtímamarkmið veita þér mikla gleði þegar þeim er náð og virka sem hvatning á leið þinni að endanlegum árangri. Skammtímamarkmið ættu að ná yfir 4-6 vikur.
- Langtímamarkmið: Þau eiga að vera meira krefjandi en skammtímamarkmiðin. Langtímamarkmið eiga að snúast um það að þú sért sáttur við eigin líkama og heilsu. Hollt mataræði og hreyfing eiga að vera hluti af lífsstílnum. Með tímanum lærir þú að þekkja þinn eigin líkama og veist nákvæmlega hversu langt þú þarft að ganga varðandi mataræði og æfingar til þess að hann verði í sínu besta formi. Langtímamarkmið ættu að ná yfir að lágmarki 1 ár og helst að endast alla lífstíð.
4. Njóttu hollrar fæðu
Lífsstílsbreyting í þeim tilgangi að léttast krefst þess að þú breytir mataræði þínu þannig að dagleg kaloríuinntekt lækkar. Þetta þýðir samt ekki að þú megir ekki njóta þess að borða góðan mat. Vertu hugmyndaríkur og leitaðu eftir uppskriftum að hollum og góðum máltíðum. Það mun eflaust koma þér á óvart hvað möguleikarnir eru margir og hvað hollur matur getur verið bragðgóður.
5. Vertu virk/ur – hreyfðu þig reglulega
Breytt mataræði eitt og sér getur hjálpað þér að léttast en með því að bæta inn reglulegri hreyfingu sem t.d. gæti verið 45-60 mín röskleg ganga fjórum sinnum í viku eykur þú árangurinn verulega. Markmiðið með hreyfingunni er að brenna fleiri kaloríum en ávinningurinn af hreyfingunni er samt sem áður meiri en það. Hversu mörgum kaloríum þú brennir fer eftir því hversu oft, lengi og ákaft þú hreyfir þig. Öll auka hreyfing kemur að gagni og með því að gera lítilsháttar breytingar á daglegum venjum eins og að velja stigann í staðinn fyrir lyftuna og að leggja bílnum í stæðið sem er lengst í burtu getur þú á einfaldan hátt aukið daglega hreyfingu þína umtalsvert.
6. Breyttu lífsstílnum þínum
Það er ekki nóg að þú borðir hollan mat og hreyfir þig í nokkrar vikur eða mánuði. Þú þarft að gera breytingar á lífsstíl þínum til frambúðar. Lífsstílsbreyting krefst þess að þú skoðir þínar matarvenjur og allar þínar daglegar venjur á heiðarlegan hátt. Með það í huga getur þú betur áttað þig á verkefninu og hafist handa við að breyta venjum þínum og viðhorfum. Það er mikilvægt að þú skoðir líka hvað hefur komið í veg fyrir að fyrri tilraunir þínar hafi ekki gengið upp sem skildi. Lífsstílbreyting til frambúðar byggir á því að þú gerir þér grein fyrir vandanum og gerir áætlanir um hvernig þú ætlar að takast á við verkefnið.
Höfundur greinar
Anna Rósa Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar