Jólin koma og þau verða æði

Á aðventu bíða okkar ýmsar áskoranir sem geta ógnað heilsu okkar og vellíðan ef við gætum ekki að okkur. Allir hafa heyrt um jólastress og jólakvíða og ætla sko aldeilis að vera betur undirbúnir næstu jól en viti menn, áður en við vitum af er aðventan rúmlega hálfnuð og okkur finnst við eiga allt eftir. Þá er hætt við að við dettum úr takti, hættum að gæta að mataræðinu, skrópum í líkamsræktina eða hættum að stunda þá hreyfingu sem við annars vitum að gefur okkur betri líðan en það sem verst er, við vökum frameftir til að klára eitthvað sem verður að klára  fyrir jól. Þá göngum við á svefninn okkar sem er ein mikilvægasta stoðin í að viðhalda heilsu og vellíðan.

Við vitum þetta en föllum samt í gryfjuna og hvað er þá til ráða?

Mikilvægast er að hætta að skamma okkur sjálf og fyllast af sektarkennd. Það dregur okkur bara enn frekar niður og vítahringurinn versnar. Jólin eru bara örfáir dagar. Það skiptir miklu meira máli hvað við gerum fyrir heilsuna alla hina dagana.

Drögum djúpt andann og endurtökum möntruna sem allir þekkja jólin koma þó svo það verði ekki allt fullkomið og þau verða æði ef við ákveðum það og reynum að missa ekki sjónar á aðalatriðunm, að njóta og gleðjast.

Nýtum okkur boðskap jólanna, sýnum hvoru öðru kærleik og umburðarlyndi og ekki síst okkur sjálfum.

Gleðileg jól

Höfundur greinar