Að ná tökum á tilverunni

Álag og streita er ástand sem getur leitt til erfiðleika í félagslegum samskiptum, vanlíðunar á sál og álags á líkama. Flestir finna einhvern tíma fyrir streitu. Þegar um er að ræða félagsleg, geðræn eða líkamleg vandamál, getum við átt í erfiðleikum með daglegt líf. Slíku fylgir oft einangrun og álag á fjölskyldu. Fram hefur komið að á skorti heildarsýn í samvinnu við einstaklinga sem þurfa á þjónustu að halda og upplýsingaflæði og samráð sé ekki nægt. Lítil samskipti milli faghópa og stofnana draga úr aðgengi einstaklinga og bið eftir þjónustu getur haft áhrif á batahorfur og lífsgæði. Mikilvægt er að bregðast skjótt við aðsteðjandi vanda fólks hvort sem hann er félagslegur, geðrænn eða líkamlegur.

Skjót og fagleg íhlutun
Ein leið að faglegri íhlutun er að hlusta vandlega á það sem fólk hefur um sín mál að segja. Þá eru sjónarmið ólíkra faghópa mikilvæg. Annars er ekki víst að bestu lausnir komi til skoðunar. Umræður um vandann geta greitt fyrir lausn. Samræður eru leið til þess að láta reyna á hugmyndir og rök, þar sem aðstæður eru ígrundaðar. Þessi aðferðafræði ríkir meðal annars hjá Heilsuvernd og Streituskólanum. Vel getur reynst að kalla saman fjölfagleg teymi.

Hvað er best að gera?
Einstaklingar stríða oft við félagsleg vandamál sem geta leitt til enn frekari vanda. Félagssaga og greining sálrænna og líkamlegra einkenna eru notuð til þess að kanna og meta aðstæður. Við greiningu á vanda fólks þarf að hafa opinn huga. Hvað veldur tilteknum einkennum? Hvað um félagslegar aðstæður á tímum COVID? Er það eitthvað sem þarf að huga að? Hvert er álit einstaklingsins og aðstandenda? Nauðsynlegt er að tala saman.

Lausnir / íhlutun
Snemmtæk íhlutun krefst skipulagningar, útsjónarsemi og tíma. Þá er reynt að koma til móts við réttindi einstaklinga. Fagfólk í heilbrigðisþjónustu á að veita bestu mögulegu þjónustu til þess að bæta líðan þeirra sem leita aðstoðar. Einstaklingar eiga rétt á samfelldri þjónustu sem byggir á samstarfi milli heilbrigðisstarfsfólks og stofnana sem hana veita, lögum samkvæmt. Bið eftir aðstoð og úrræðum ætti að heyra sögunni til. Slík bið getur haft ó­afturkallanlegar afleiðingar.

Mikilvægt er að hafa í huga að félagslegar aðstæður geta haft mikil áhrif á heilsu og í lögum um heilbrigðisþjónustu er félagsleg heilsa skilgreind sem heilbrigðismál. Samræður faghópa og þeirra sem leita þjónustu er mikilvæg. Það skapar traust sem hefur verulega mikið að segja varðandi líðan og bata. Ef þessir þættir eru ekki til staðar getur það leitt til tortryggni og vanlíðunar sem getur dregið úr batahorfum og lífsgæðum. Samnýta þarf aðferðir og nýta betur samanlagða þekkingu. Ríkt samráð ber að hafa við einstaklingana sjálfa og hlusta vandlega á raddir þeirra um þær þarfir, óskir og væntingar sem þeir hafa.

Endurhæfing
Við sálfélagslega endurhæfingu er hugað að umhverfis- og félagslegum þáttum til þess að athuga hvort vandann megi að einhverju leyti rekja til aðstæðna. Huga þarf að heildarumhverfi þar sem tilgangurinn er að kynnast persónuleika, félagslegum tengslum og fjölskylduaðstæðum viðkomandi. Áhersla er lögð á að auka ábyrgð og þátttöku einstaklinga í eigin meðferð og um leið á eigin bata og valdeflingu, meðal annars með því að draga fram það sem viðkomandi er fær um að gera. Samvinna milli þeirra sem vinna að meðferð og þeirra sem vinna að endurhæfingu og við einstaklinginn sjálfan er nauðsyn. Á grundvelli samstarfs tvinnast þættir saman, einstaklingum til ávinnings.

Lokaorð
Þekkt er orðatiltækið „aðgát skal höfð í nærveru sálar“. Að viðhalda virðingu í samskiptum kallar á skilning á daglegu lífi einstaklinga, þörfum, óskum og vilja. Nauðsynlegt er að styrkja samskipti við fjölskyldu og samstarfsfólk og viðhalda tengslaneti sínu. Mikilvægt er að þróa með sér jákvætt hugarfar, vanda samskipti, hreyfa sig reglulega og hvíla. Vinna þarf að forvörnum gegn álagi og streitu áður en í óefni er komið og finna jafnvægi á milli atvinnu og fjölskyldulífs. Það er mikilvægt að nýta þann kraft til sjálfsbjargar sem samgróinn er hverjum einstaklingi og skjót aðstoð getur haft mikil áhrif.

 

Greinin birtist líka í Fréttablaðinu þann 28.01. 2021

Höfundur greinar

  • Dr. Sveinbjörg Júlía Svavarsdóttir

    Sérfræðingur í félagsráðgjöf á heilbrigðissviði Vottun Vinnueftirlitsins Félagsráðgjöf, fjölskyldu- og hjónaráðgjöf, einstaklingar og stjórnendur.

    Allar færslur höfundar