Amfetamín
Lyf þetta hefur verið notað við lækningar frá því um 1935 en var fyrst framleitt árið 1887. Amfetamín líkist boðefnunum noradrenalíni og dópamíni að gerð og var áður notað við alls konar geðdeyfð, athafna- og framkvæmdaleysi, við hugstreitu og megrun. Nú telst notkun lyfisins við áðurnefnd tækifæri vafasöm. Dregið hefur stórlega úr notkun amfetamíns og skyldra lyfja bæði vegna hættu á ávana og fíkn og tilkomu annarra lyfja. Ein helsta ábending á notkun þessara lyfja er ofvirkni og athyglisbrestur í börnum. Er þá frekast notað metýlfenídat sem er skylt amfetamíni að gerð og verkunum. Metýlfenídat er notað í litlum skömmtum og virðist lítil hætta vera á ávana og fíkn í lyfið í þessum börnum. Við þetta sjúkdómsástand er hrörnun eða vanþroski í viðtækjum fyrir dópamín í vissum hlutum heilans.
Verkun amfetamíns í miðtaugakerfinu skýrist sennilega af losun á þremur boðefnum úr taugungum, þ.e. noradrenalíni, dópamíni og serótóníni. Örvun af völdum amfetamíns eftir litla skammta er talin vera vegna losunar á noradrenalíni. Ávani og fíkn í amfetamín er sett í samband við losun á dópamíni. Geðveikikennd viðbrögð eftir stóra skammta eða langvarandi töku eru talin stafa af losun á serótóníni ásamt dópamíni (sjá töflu 5).
Verkun amfetamíns í venjulegum skömmtum til inntöku (10-30 mg) er langmest áberandi ef þreyttir einstaklingar eiga í hlut. Hjá þeim getur amfetamín eflt vökuvitund til muna og seinkað mjög svefni. Amfetamín dregur úr matarlyst, örvar öndun og frumlífsviðbrögð (öndunarstarfsemi, starfsemi hjarta og blóðrásar) í heilastofni og einkum ef þau eru slævð fyrir. Ef óvanir taka stærri skammta (20-30 mg upp í 50-100 mg) veldur það óróa, svima, kvíða og svefnleysi, sem venjulega skyggir á vellíðunarkennd. Sömuleiðis ber á óþægilegum einkennum frá hjarta- og æðakerfi og meltingarfærum. Á þessu stigi getur neytandinn fundið fyrir rangskynjunum (venjulega heyrnarskynjanir) og ranghugmyndum (ofsóknarkennd) og kann að hegða sér afbrigðilega í samræmi við það (æðisgengnar athafnir svo sem að vinna sjálfum sér eða öðrum tjón). Við langvarandi notkun getur þetta ástand tekið á sig mynd geðklofa. Það hverfur þó alltaf eða nær alltaf þegar töku amfetamíns er hætt.
Mikið þol myndast að jafnaði gegn flestum verkunum amfetamíns, m.a. gegn verkun á matarlyst, hjarta og æðar, banvænni verkun og vellíðunarkennd. Fráhvarfseinkenni eftir amfetamín eru vel þekkt svo sem þreyta, langvarandi og órólegur svefn, óværð, mikið hungur og deyfð.
Alvarleg amfetamínfíkn er undantekningarlítið bundin við að sprauta efninu í æð. Amfetamínfíklar lýsa vellíðan, ekki sjaldan á svipaðan hátt og heróínfíklar heróínvímu, sem unaðslegri kennd á borð við kynferðislega fullnægingu. Gallinn er hins vegar sá að með áframhaldandi notkun verður mun meira þol gegn vellíðunarkennd og bilið í geðveikikennt ástand og hegðun styttist. Geðveikikennt ástand er hins vegar fátítt eftir jafnvel langvarandi töku morfíns eða heróíns. Amfetamínfíklar eru þess vegna oft verri viðureignar en heróínfíklar. Í stórum skömmtum og einkum við langvarandi töku minna áhrif amfetamíns að nokkru leyti á verkun lýsergíðs (LSD).
Amfetamínfíkn er orðin tiltölulega algeng hér á landi. Svo virðist sem lítt hafi verið þekkt hér að menn sprautuðu amfetamíni í æð sér fyrir 1983.
Ýmis ávana- og fíkniefni hafa verið framleidd út frá amfetamíni eða metamfetamíni en hafa blandaða verkun og líkjast lýsergíði að nokkru.
Höfundur greinar
Fræðslumiðstöð um forvarnir
forvarnir.is
Allar færslur höfundar