Börn yfir kjörþyngd- hvað er til ráða?

 

Efnisyfirlit

Meðferðarúrræði fyrir börn yfir kjörþyngd

Hröð þróun hefur verið í þyngdaraukningu barna víðs vegar í heiminum. Þessi þróun á sér ýmsar orsakir en aðalástæða hennar er talin vera breyting á mataræði og minni hreyfing. Fjöldi grunnskólabarna yfir kjörþyngd á Íslandi er um 20%. Rannsóknir hafa sýnt að afleiðingar offitu geta verið alvarlegar og því er mikilvægt að sporna gegn þróun offitu barna. Öflugt forvarnarstarf hefur verið unnið hérlendis í leik- og grunnskólum enda eru þær stofnanir kjörinn vettvangur til slíks starfs þar sem börn eyða dágóðum tíma vikunnar innan veggja þeirra.

 

Orsakir

Hreyfing barna hefur minnkað vegna aukinnar kyrrsetu sem hefur þróast vegna breytinga á samgöngum og aukinnar þéttbýlismyndunar. Orsakir offitu eru margþættar en aðal orsök þyngdaraukningar verður þegar einstaklingur neytir fleiri hitaeininga en orkuþörf hans krefur. Næring barna hefur breyst á þann veg að aukin inntaka er á orku- og fituríkum mat sem inniheldur mikinn sykur og salt og lítið af vítamínum og steinefnum. Rannsóknir hafa ennfremur sýnt að börn í lægstu þjóðfélagsstigum þeirra landa sem teljast til hátekjulanda eru með hraða aukningu á þróun offitu vegna þess að óhollari matur er yfirleitt ódýrari en hollur.

Erfðagallar skýra aðeins 1% tilfella offitu barna. Sumir efnaskiptasjúkdómar geta valdið þyngdaraukningu og stuðlað að offitu, svo sem vanvirkur skjaldkirtill (Hashimoto‘s sjúkdómur) og ofgnótt af hormóninu cortisol (Cushing sjúkdómur). Bein tengsl eru á milli bæði meðfæddra og áunninna galla á undirstúku og alvarlegrar offitu hjá börnum og unglingum. Aðrir orsakaþættir sem skýra þróun offitu í barnæsku eru meðal annars:

  • sjónvarpsáhorf
  • ýmis lyf (insúlín, sterar, geð-, flogaveikis- og blóðþrýstingslækkandi lyf)
  • meðgöngusykursýki móður
  • búa í þéttbýli
  • léleg fjárhagsleg staða foreldra

 

Afleiðingar

Ýmis heilbrigðisvandamál geta fylgt offitu hjá börnum og hafa rannsóknir sýnt að börn yfir kjörþyngd eru líklegri en önnur börn til að þróa með sér sjúkdóma eins og:

  • of háan blóðþrýsting
  • hjarta- og æðasjúkdóma
  • sykursýki II
  • liðagigt

Sálrænar afleiðingar hjá börnum yfir kjörþyngd eru algengari en líkamlegar. Þau verða oftar fyrir fordómum og eru líklegri en önnur börn til að þróa með sér lélegri sjálfsmynd sem getur leitt til ýmissa annarra tilfinninga- og hegðunarvandamála.

Offita snemma á lífsleiðinni getur haft margar alvarlegar afleiðingar á barns- og fullorðnisaldri. Stúlkur sem glíma við offitu ungar að aldri geta byrjað fyrr á kynþroskaskeiði en jafnöldrur þeirra. Brjóst þeirra byrja snemma að stækka og fyrstu tíðablæðingar hefjast fyrr en vanalegt er og þá oftast fyrir 10 ára aldur. Drengir með offitu geta einnig byrjað fyrr á kynþroskaskeiði og bein drengja og stúlkna vaxið hraðar og þroskast fyrr en hjá börnum í kjörþyngd. Börn í yfirþyngd geta glímt við margs konar stoðkerfisvanda eins og liðverki, og þau eru einnig viðkvæmari fyrir beinbrotum og fá oftar beinhimnubólgur. Önnur alvarlegri stoðkerfisvandamál sem tengjast yfirþyngd barna er aflögun hnjáliða (Blunt sjúkdómur). Börn sem eru yfir kjörþyngd eru ennfremur í mikilli áhættu á að þróa með sér á unglings- eða fullorðinsárum óinsúlínháða eða insúlínháða sykursýki, háþrýsting, æðakölkun, blóðþurrðar hjartasjúkdóma og svokallaða fitulifur ótengda áfengisdrykkju.

American Academy of Pediatrics og The American Diabetes Assosciation mæla með því að öll börn í yfirþyngd og sem hafa að minnsta kosti tvo aðra áhættuþætti ætti að skima fyrir sykursýki og insúlínónæmi við 10 ára aldur og á tveggja ára fresti eftir það. Gallsteinar í börnum eru taldir tengjast offitu barna í átta til 33% tilvika. Hár líkamsþyngdarstuðull í barnæsku hefur einnig verið tengdur við lungnasjúkdóma á borð við kæfisvefn og astma. Áætlað er að 33 til 94% barna með alvarlega offitu þjáist af kæfisvefni.

 

Forvarnir

Grunnskólaaldur er sá aldur þar sem börn eru í hvað mestri hættu á að þyngjast umfram kjörþyngd og þróa með sér offitu. Á árunum 2003 til 2006 var holdarfar barna í Þýskalandi metið í fyrsta skipti. Í ljós kom að níu prósent barna á aldrinum þriggja til sex ára voru yfir kjörþyngd, þar af voru 2,9% of feit. Hækkaði þetta hlutfall upp í 15% hjá sjö til 10 ára börnum en þar af voru 6,4% með BMI yfir 30.

Svipuð þróun á sér stað hér á landi. Árið 2010 voru 11% tveggja ára barna, 12,5% fjögurra ára barna og 15% sex ára barna yfir kjörþyngd. Fjöldi tveggja ára barna sem töldust vera með offitu var 1,5%, um tvö prósent fjögurra ára barna og 3,2% sex ára barna. Þetta sýnir um helmingsfjölgun frá tveggja ára aldri til sex ára aldurs og því greinilegt að hlutfall barna yfir kjörþyngd eykst mikið frá því að þau eru í leikskóla og þar til þau hefja grunnskólagöngu. Því er mikilvægt að hefja markvisst forvarnarstarf snemma og jafnvel áður en börnin byrja í grunnskóla. Rannsóknir styðja þá tillögu að ákjósanlegast sé að hefja forvarnir áður en LÞS barna eykst en það gerist líffræðilega fyrir öll börn um sex ára aldur. Hvernig fitumassi barna breytist á þessum árum fer eftir næringarinntekt, hreyfingu og erfðum.

Í íslenskum klínískum leiðbeiningum um meðferð við offitu segir að gæta þurfi sérstaklega að breytingum á LÞS hjá börnum á aldrinum fimm til sjö ára þar sem þær geti gefið vísbendingu um hættu á ofþyngd og offitu. Því fyrr sem gripið er inn í, því meiri líkur eru á að hægt sé að koma í veg fyrir að börn fari yfir kjörþyngd en einnig stuðlað að því að börn sem eru í kjörþyngd haldi því áfram.

Umhverfisþættir, lífstíll og menning eru talin hafa hvað mest áhrif á þróun offitu hjá börnum. Börn læra snemma hvað þau eiga að borða og hvernig þau eiga að hreyfa sig, út frá því samfélagi sem þau búa í, en einnig hversu mikla kyrrsetu þau eiga að tileinka sér. Í forvarnarstarfi þar sem markmiðið er að draga úr offitu barna þarf að hafa í huga næringarþörf barnanna til þess að vernda vöxt þeirra og þroska til lengri tíma litið.

Hreyfing er mikilvægur þáttur í forvörnum. Börnum er eðlilegt að hreyfa sig og þau hafa mikla orku sem leysa þarf úr læðingi. Öll börn verða virk ef þau fá næga hvatningu og tækifæri til þess að hreyfa sig. Ekki er talið áhrifaríkt að þrýsta á börn til að taka þátt í skipulagðri íþróttastarfsemi, heldur leyfa barninu að finna það hjá sjálfu sér að hreyfing getur verið skemmtileg og veita því svigrúm og öryggi fyrir frjálsan leik innan- og utandyra.

Fræðimaðurinn Sothern setti fram mikilvæg atriði í forvörnum gegn of feitri æsku. Hún nefnir að til þess að koma í veg fyrir þróun ofþyngdar hjá börnum þurfi að byrja forvarnir snemma. Mikilvægt er að hefja brjóstagjöf eins fljótt og hægt er, reyna að hafa ungbörn einungis á brjósti fyrstu mánuðina, hafa hollan mat sýnilegan á heimilinu í stað óholls matar, huga að þeim matarskömmtum sem börnum eru gefnir og kenna þeim að læra að finna út sjálf hvenær þau eru orðin södd. Sothern leggur áherslu á að ekki eigi að kenna börnum að flokka mat í hollan og óhollan. Hún bendir einnig á að ekki eigi að nota mat sem verðlaun fyrir góða hegðun, minnka þurfi sjónvarpsáhorf barna, en frekar eigi að hlusta á tónlist og dansa með barninu.

Langtímarannsókn sem gerð var á Íslandi styður tillögu Sothern um brjóstagjöf. Rannsóknin sýndi fram á marktækt samband á milli mikillar þyngdaraukningar á fyrsta aldursári og þess að börn verði yfir kjörþyngd við sex ára aldur. Rannsóknin tók til alls 100 barna þar sem samband mataræðis og vaxtar með tilliti til LÞS frá fæðingu til sex ára aldurs var metið. Börn sem eru lengi á brjósti hafa oft lægri LÞS en börn sem eru skemur á brjósti og neyta annarrar fæðu og má því segja að brjóstagjöf sé góð forvörn gegn offitu barna.

 

Hvað er til ráða?

Að mörgu þarf að huga þegar velja á meðferð fyrir barn sem er í yfirþyngd eða sem þjáist af offitu en samspil mataræðis og hreyfingar er mikilvægt og því nauðsynlegt að beita heildrænni nálgun við meðferð hjá þessum hópi barna. Áður en meðferð er hafin ætti að skima fyrir andlegri vanlíðan og hegðunarvandamálum því þeir þættir geta haft áhrif á árangur meðferðar.

Foreldrar eru stór áhrifaþáttur þegar það kemur að þyngd barna og þurfa þeir að sýna gott fordæmi því börn læra það sem fyrir þeim er haft. Þeir gegna einnig stóru hlutverki í meðferð og meðferðarheldni barna við offitu og geta haft mikið forspárgildi um árangur meðferðar.  Foreldrar bera ábyrgð á því hvaða mat börn þeirra borða, hversu stóra skammta þau fá og hvaða tilfinningar börn tengja við mat. Mataræði smábarna speglar oft vandamál foreldra þeirra. Sýnt hefur verið fram á að fjölskylda barns og umhverfið sem það elst upp í hefur mikil áhrif á þær matarvenjur sem það tileinkar sér, almennt viðhorf þess til matar og hvernig það finnur fyrir seddu. Foreldrum leikskólabarna er ráðlagt að bjóða börnum sínum upp á valkost af hollum mat í réttum skömmtum og leyfa börnunum að velja hvað og hversu mikið þau vilja borða. Ef foreldrar stunda reglulega hreyfingu þá er líklegra að börn þeirra hreyfi sig og stundi íþróttir. Foreldrar hafa ekki einungis áhrif á hreyfingu og mataræði barna sinna heldur virðist sem holdafar þeirra hafi einnig áhrif á holdafar barnanna. Ef annað eða báðir foreldrar eru of feitir getur það aukið líkur á að barn þeirra muni einnig glíma við sama vandamál.

Samkvæmt íslenskum klínískum leiðbeiningum um offitu barna á að beita sérhæfðri meðferð ef barn er með LÞS yfir 30 og þegar barnið og fjölskylda þess virðast reiðubúin til þess að takast á við nauðsynlegar breytingar á lífsháttum (Landlæknisembættið, 2007). Því fyrr sem meðferð við offitu hefst því betri árangurs er að vænta til lengri tíma.

Það virðist gefa betri árangur að hafa meðferðarinngrip heildrænt þar sem tekið er á mataræði og hreyfingu saman í stað þess að taka aðeins fyrir einn þátt.

Allt er mögulegt ef viljinn er fyrir hendi á vel við um meðferðarheldni barna með offitu því meðferðaraðili þarf að fá bæði barn og fjölskyldu þess í lið með sér til þess að einhverjar breytingar geti átt sér stað. Margt hefur áhrif á meðferðarheldni barna. Áður en meðferð er hafin þurfa meðferðaraðilar að huga að ýmsum þáttum sem geta hindrað að meðferð gangi sem skyldi. Bakgrunn hvers barns þarf að meta og hvaða sálfélagslegu þættir geta haft áhrif á líðan þess. Afleiðingar offitu geta verið af sálrænum toga eins og nefnt hefur verið en að mörgu þarf að huga áður en meðferð er valin því börn yfir kjörþyngd eru líklegri til að glíma við neikvæðar hugsanir, lágt sjálfsmat og þunglyndi en önnur börn. Börn sem þjást af offitu og eru með þunglyndiseinkenni eru líklegri til að svara verr og vera síður meðferðarheldin í þyngdarstjórnunarmeðferðum og þurfa þar af leiðandi á mikilli sálfræðilegri aðstoð að halda samhliða námskeiðunum.

 

Áhugahvetjandi samtal

Heilbrigðisstarfsfólk og aðrir meðferðaraðilar hafa stuðst við ýmsar aðferðir sem stuðla að hegðunarbreytingum og þá sérstaklega svokallaða áhugahvetjandi samtalstækni en hún hefur gefið góðan árangur við að hvetja börn með offitu og foreldra þeirra til að hefja meðferð. Áhugahvetjandi samtal er einstaklingsmiðuð leið sem notuð er til þess að hvetja til breytinga hjá einstaklingum og er samvinna og fræðsla höfð að leiðarljósi. Þessi aðferð veitir fjölskyldum ákveðinn vettvang til þess að tala opinskátt um tilfinningar sínar og áhyggjur. Það að nota áhugahvetjandi samtal í meðferð gegn offitu barna hefur reynst vel og stuðlar að áhuga fyrir breytingum bæði hjá barninu og fjölskyldu þess og hjálpar þeim að standast þau markmið sem þau hafa sett sér. Í stað þess að veita almennar ráðleggingar um að borða hollt snýst hegðunarbreytingin um að fá bæði börnin og foreldrana til að skilja mikilvægi holls mataræðis og finna fyrir vilja til breytinga. Mikilvægt er að meðferðaraðili gefi nákvæmar leiðbeiningar eins og til dæmis að barn eigi að borða fimm tegundir af ávöxtum og grænmeti á dag. Fagaðili þarf að setja niður raunhæf markmið með barninu og fjölskyldu þess því ef barnið nær markmiðum sínum þá eflist það yfirleitt og sýnir aukinn áhuga á að standa sig og setja sér háleitari markmið.

 

Fjölskyldumiðuð atferlismeðferð

Fjölskyldumiðuð atferlismeðferð var þróuð til þess að veita bæði foreldrum og barni meðferð við offitu með því markmiði að foreldrið hefði svo áhrif á umhverfi fjölskyldunnar, yrði fyrirmynd fyrir barnið og myndi veita því stuðning. Rannsóknir til langs tíma hafa sýnt fram á að meðferð gangi betur hjá ungum börnum ef foreldrar þeirra og/eða aðrir nánustu ummönnunaraðilar eru hafðir með í meðferðinni.

Í íslenskum klínískum leiðbeiningum við offitu barna er lögð áhersla á að meta hreyfingar- og matarvenjur fjölskyldunnar í heild. Til þess að breyta óæskilegum lífsstíl er fólk sem á börn sem eru með LÞS 30 og yfir hvatt til að fá fjölskyldu og vini til að styðja og aðstoða barnið við að breyta hegðun sinni. Fjölskyldur eru hvattar til að breyta matarvenjum með því að hafa reglu á máltíðum, hafa yfirleitt hollan mat í boði, en leyfa sætindi til dæmis einu sinni í viku og koma í veg fyrir að barnið borði fyrir framan sjónvarpið. Áhersla er lögð á að setja ekki einhverja ákveðna fæðu á bannlista heldur kenna börnum hófsemi. Mælt er með því að verðlauna ekki barnið með mat heldur gefa því leikföng eða gera eitthvað sem barnið hefur gaman að eins og að fara í bíó. Ef barninu líður illa þá er mikilvægt að hugga það með snertingu, samúð og hlýju en ekki með mat (Landlæknisembættið, 2007).

Í Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins er boðið upp á fjölskyldumiðaða meðferð fyrir börn yfir kjörþyngd og fjölskyldur þeirra. Meðferðin byggir á hugmyndafræði Leonard H. Epstein en sem hefur verið löguð að íslenskum aðstæðum. Markmiðið er að aðstoða börn og foreldra þeirra við að breyta lífstíl sínum til betri vegar með það að markmiði að börnin færist nær æskilegri þyngd og eigi síður við heilsufarsvanda tengdan holdarfari að stríða í framtíðinni.

Það ætti að vera sameiginlegt markmið samfélagsins að stuðla að öflugum forvarnaraðgerðum auk þess að bæta og fjölga meðferðarúrræðum og leggjast á eitt við að sporna gegn því að börn fari úr yfirþyngd yfir í offitu og í heild að draga úr hlutfalli barna yfir kjörþyngd.

 

Hægt er að fræðast nánar um Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins hér: http://barnaspitali.is/teymi/heilsuskoli-barnaspitalans/

 

 

 

Heimildir

Ells, L. J., Campell, K., Lidstone, J., Kelly, S., Lang, R. og Summerbell, C. o.fl. (2005). Prevention of childhood obesity. Best Practice & Research Clinical Endocrinology & Metabolism, 19(3), 441-454.

Epstein, L. H., Paluch, R. A., Roemmich, J. N. og Beecher, M. D. (2007). Family-based obesity treatment, then and now: Twenty-five years of pediatric obesity treatment. Health Psychology, 26(4), 381–391

Farooqi, S. og O´Rahilly, S. (2006). Genetics of obesity in humans. Endocrine Review, 27, 710-718

Gunnarsdottir, I. og Thorsdottir, I. (2003). Relationship between growth and feeding in infancy and body mass index at the age of 6 years. International Journal of Obesity, 27, 1523-1527.

Jórlaug Heimisdóttir. (e.d.). Allt hefur áhrif, einkum við sjálf. Sameiginlegt þróunarverkefni Lýðheilsustöðvar og 25 sveitarfélaga á Íslandi.Undirbúnings-og skipulagshluti. Reykjavík: Lýðheilsustöð.

Lee, M. og Korner, J. (2009). Review of physiology, clinical manifestation, and management of hypothalamic obesity in humans. Pituitary, 12, 87-95. Lee, Y. S. (2009). Consequences of childhood obesity. Annals Academy of Medicine Singapore, 38, 75-81.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, Sesselja Guðmundsdóttir, Ragnheiður Bachmann, Helga Lárusdóttir og Margrét Héðinsdóttir. (2011). Heilsuvernd Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins árið 2010. Reykjavík: Þróunarstofa Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Rosenfield, R. L., Lipton, R. B. og Drum, M. L. (2009). Thelarche, pubarche and menarche attainment in children with normal and elevated body mass index. Pediatrics, 123, 84- 88

Sothern, M. S. (2004). Obesity prevention in children: Physical activity and nutrition. Nutrition, 20(7), 704-708.

Stefán Hrafn Jónsson og Margrét Héðinsdóttir (2010). Líkamsþyngd barna á höfuðborgarsvæðinu: Er hlutfall barna yfir kjörþyngd að aukast? Reykjavík: Lýðheilsustöð og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.

Stefán Hrafn Jónsson, Margrét Héðinsdóttir, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir og Jón Óskar Guðlaugsson. (2011). Börn á höfuðborgarsvæðinu léttari nú en áður. Niðurstöður úr Ískrá á þyngdarmælingum barna frá 2003/04-2009/10. Reykjavík: Landlæknisembættið og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.

Steinbekk, S., Ødegård, R. og Wichstrøm, L. (2011). Treatment of obesity in children: Parent’s perceived emotional barriers as predictor of change in body fat. Obesity Research & Clinical Practice, 5(3), 229-238

Taylor, E. D., Theim, K. R., Mirch, M. C., Ghorbani, S., Tanofsky-Kraff, M., Adler Wailes, D. C. o.fl. (2006). Orthopedic complications of overweight in children and adolescents. Pediatrics, 117(6), 2167-2174.

Tauman, R. og Gozal, D. (2006). Obesity and obstructive sleep apnea in children. Pediatric Respiratory Reviews, 7, 247-259.

World Health Organization (WHO). (2011). Obesity and Overweight. Sótt af http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs311/en/index.html

Höfundar greinar