Ég á von á barni og má ég borða ösku?

Nei, líklega er það ekki skynsamlegt ef góð heilsa ykkar beggja er markmiðið. Ófrískar konur hafa lýst þessari óstjórnlegu löngun í að vilja borða ösku og vera jafnvel sólgnar í hana á meðgöngu. Er þetta eðlilegt eða algjörlega rugluð löngun að sækjast eftir slíku óæti? Þessi löngun, sem grípur margar ófrískar konur á meðgöngu, í eitthvað sem talið er óæti (mold, ösku, vax og jafnvel málningarflögur og fleira) er kallað „pica“ í fræðunum og er notað yfir óeðlilega löngun einstaklinga til að borða einhverskonar óæti.

Þetta orð er einnig notað yfir þá sem sólgnir eru í frosinn mat eða í að japla á vatnsklökum og jafnvel kaffikorki. En hver er lausnin á því að komast út úr því ástandi að vilja jafnvel borða máliningarflögur eða ösku? Það sem er best að gera ef kona á meðgöngu finnur fyrir þessari óeðlilegu löngun er að leita aðstoðar heilbrigðisstarfsfólks og biðja um að tekin sé blóðprufa til að ganga úr skugga um að ekki sé um einhverskonar næringarskort að ræða og ef svo reynist ekki þá er gott að leita til sálfræðings með ráðleggingar um að komast út úr þessum vítahring til að skoða hvort mögulega fyrir liggi sálrænar skýringar. Það er mikilvægt að nærast vel þegar kona gengur með barn undir belti og láta þá ekki eitthvað óæti er skaðað getur fóstrið taka pláss frá hollri næringu.

Fyrsta skrefið getur verið að leita ráða og stuðnings ljósmóðurs ef þessi löngun er til staðar og með því er hægt að grípa inní aðstæður og aðstoða viðkomandi með þeirri hjálp sem er í boði. Löngun í ákveðnar fæðutegundir er þekkt en löngun í óæti er af allt öðrum toga. Leitið ráða hjá fagfólki eins og ljósmóður, hjúkrunarfræðingi eða næringarfræðingi til að fá álit og aðstoð og stundum getur sálfræðingur einnig reynst hjálplegur.

Góðar ráðleggingar:

Neytið

  • fjölbreyttrar fæðu
  • grænmetis og ávaxta
  • grófmetis til að fá trefjar
  • nóg  af vatni
  • kjöts, fisks, eggja eða bauna sem próteingjafa
  • hollrar fitu eins og omega 3 fitusýra sem eru í laxi og góðra olía.
  • kaffis og annarra koffein drykkja í hófi.

Munið að allt er best í hófi hversu hollt sem það virðist vera. 1 kg af gulrætum á dag eða annarri fæðutegund er ekki endilega það sem ég mundi mæla með, heldur að borða fjölbreytt og hafa máltíðirnar reglulegar. Ekki borða fyrir tvo heldur auka næringuna um 3-400 hitaeiningar á dag.

Vona að þetta hjálpi og meðgangan gangi vel og án „pica“ löngunar því jafnvægi er alltaf best.

Höfundur greinar