Endurhleðsla

Þetta er ekki grein um rafbíla heldur fræðsla til forvarna.

Endurhleðsla (English: Recovery. Svenska: Återhämtning) er hugtak sem notað er í vaxandi mæli í streitufræðunum.

Það felur í sér að hver og einn þrói með sér aðferðir til að ná sér andlega og líkamlega eftir álag. Ekki aðeins í kjölfar álagstíma og áfalla heldur einnig eftir álag hversdagsins.

Öflugasta endurhleðslan og nauðsynleg er auðvitað góður svefn. Annað dæmi er gæðastund með fjölskyldu eða vinum. Fleiri dæmi eru jógatímar, reiðtúrar, kóræfingar, íhugun eða bænastund. Hver og einn þarf að finna sína leið. Áhugavert er að oft erum við ekki neitt sérstaklega uppfinningasöm hvað þetta varðar og það er hollt ráð að vera frjór og prófa nýjar leiðir til endurhleðslu. Gættu að því að flestir hætta að sinna endurhleðslu þegar mikið er að gera. Finnast þeir ekki hafa tíma. En er ekki sérlega skynsamlegt.

Það er líka hægt og í raun mjög mikilvægt að stunda endurhleðslu á miðjum vinnudegi. Við í Streituskólanum köllum það “daghvíld”. Þá er gefinn tími fyrir gott spjall í kaffistofunni, svigrúm til að fara yfir erfiðu málin í lok vinnudags eða að ganga hring um hverfið um miðjan dag. Margir eiga erfitt með þetta, fá samviskubit eða finnst þeir vera að skrópa. Jú mikið rétt það eru þeir samvisku- og vinnusömu sem eru í mestri hættu að fá kulnun.

Sumarfríið er afar mikilvægur tími fyrir bæði andlega og líkamlega endurhleðslu. Á álagstímum eins og núna eftir heimsfaraldurinn, þegar víða er margt ógert og mönnun ekki nægilega góð, getur verið freistandi að stytta sumarfrí eða skipta því upp í styttri tímabil. Hugsið ykkur tvisvar um. Ekkert er betra fyrir starfssemina en að starfsfólk og stjórnendur snúi til baka að hausti í góðri líðan, áhugasamt, hugmyndarríkt og orkumikið eftir langa og góða andlega og líkamlega endurhleðslu.

Með ósk um ánægjulegt sumar og von um að þið finnið endurhleðslustöðvarnar ykkar.

Höfundur greinar

  • Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og ráðgjafi í forvörnum hjá Streituskólanum-Heilsuvernd.
    Allar færslur höfundar