Ferðalög og Heilsan

Ferðalög landans hafa  aukist jafnt og þétt á síðustu áratugum og nú þykir ekki lengur orðið tiltökumál að fara til fjarlægra heimsálfa. Það sem gleymist oft í gleðinni við undirbúning ferðar eru forvarnirnar sem snúa að heilsunni.

Það er alltaf spennandi að ferðast um heiminn og upplifa nýjar víddir á fjarlægum slóðum. Heimsálfurnar fjarlægu bjóða upp á ógleymanlega upplifun bara við það eitt að stíga úr flugvélinni.  En því miður bjóða ýmis fjarlæg og framandi lönd einnig uppá sjúkdóma sem geta reynst fólki lífshættulegir. Mörgum þeirra er hægt að verjast með réttum forvarnaraðgerðum eins og til dæmis bólusetningum.

Mikilvægt er að afla upplýsinga um bólusetningar og bóka tíma með góðum fyrirvara helst 2 mánuðum áður en lagt er í ferðina. Erfitt er að gefa einhlítar ráðleggingar um bólusetningu ferðamanna. Þeir þættir sem ráða því hvort og með hvaða bóluefni viðkomandi verði bólusettur eru:

  • Saga um fyrri bólusetningar
  • Til hvaða lands og landsvæðis er verið að fara
  • Hversu lengi mun viðkomandi dvelja í landinu og við hvaða aðstæður
  • Hversu algengir eru sjúkdómar sem bólusett er gegn á ferðasvæði viðkomandi
  • Einstaklingar með langvinna sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma, sykursýki eða nýrnasjúkdóma ættu að ráðfæra sig við lækni í góðum tíma fyrir brottför.

Bólusetningar eru einfaldar í framkvæmd en þurfa að vera framkvæmdar af fagaðila með reynslu og þekkingu í ónæmisvörnum ferðamanna. Hægt er að leita til heilsugæslustöðva, heimilislækna og annarra fagaðila svo sem Heilsuvernd ehf til að fá nánari upplýsingar og bólusetningu.

Ekki er síður mikilvægt að huga að ýmsum almennum atriðum í tengslum við ferðir til annarra landa. Þar má telja nokkur atriði  eins og að vera með sólvörn, tryggja hreint drykkjarvatn, áburði og annað til varnar skordýrabitum og kynna sér almennt hreinlæti varðandi salernismál og matargerð á þeim stað sem maður ætlar að heimsækja.

Gerið ferðina ógleymanlega án þess að hafa áhyggjur af heilsunni.

Höfundur greinar