Flensa

Hvort sem þú ákveður að fara í flensusprautu eða ekki er mikilvægt að þekkja og geta nýtt sér þær leiðir sem þekktar eru til varnar því að smitast af árlegri flensu. Sértu nú þegar búin að venja þig á að hnerra í ermina, þvo hendur vandlega og að forðast margmenni þar sem mikið getur verið um vírusa ertu vissulega á réttri leið en það eru fleiri hlutir sem þarf að huga að því það er ýmislegt fleira sem getur haft áhrif á smitlíkur:

Áhyggjur: Með því að vera sífellt að velta fyrir sér hvort maður sé orðinn veikur getur hreinlega valdið veikindum. Það er mikilvægt að halda ró sinni í allri umræðunni og muna að langflestir þeirra sem smitast ná fullum bata.

Reykingar: Sígaretturreykurinn  lamar bifhár í nösum og lungum. Þessi bifhár eru ætluð til að „gripa” eða fanga veirur og bakteríur. Þannig verður líkami þess sem er útsettur fyrir sígarettureyk ekki jafnvel varinn fyrir smiti.

Líkamsrækt: Allt er best í hófi, það er marg sannað og holl og góð hreyfing hjálpar til við að byggja upp ónæmiskerfið. Hins vegar er ekki gott að leggja of mikið álag á líkamann og ofurþjálfun getur haft neikvæð áhrif á ofnæmiskerfið og veikt það, sérstaklega ef þú gætir ekki að því að fá nægan svefn, nærast og drekka vel. Hæfileg hreyfing sem hentar þér er því lykilatriði.

Áfengi: Það er alltaf skynsamlegt að stilla áfengisneyslu í hóf. Ein afleiðing áfengisdrykkju er sú að neysla þess veldur ofþornun og það hefur aftur áhrif á slímhúðirnar í nefi og hálsi og getu þeirra til að  „fanga “ og losa sig við sýkla.

Kæruleysi: Þetta getur virst vera mótsögn við umfjöllunina hér að ofan en það er hins vegar þannig að besta leiðin til að takast á við flensutímabilið er að vera mitt á milli þess að fá kvíðakast eða sýna kæruleysi.  Kjarni málsins er sá að aldur og heilsufar gerir þig ekki ónæman og allir þurfa að taka þátt í forvörnum gegn útbreiðslu veirusýkinga til að árangur náist.

Höfundur greinar