Gott í gönguna

Um þessar mundir eru margir að undirbúa göngur af ýmsu tagi. Auk góðs útbúnaðar og félagsskapar er nauðsynlegt að hafa gott úthald og fulla „geyma“ af góðri orku.

Þegar vinsælar gönguleiðir, eins og Laugavegurinn, Hornstrandir, Strútsstígur og Lónsöræfi, eru farnar er gengið tiltölulega hægt en undir stöðugu álagi (40% – 60% af hámarksálagi). Við slíkar aðstæður ermest verið að brenna fitu. Þó koma tímabil, þegar brattinn er meiri, að treysta þarf á skyndiorku eða glykógen (kolvetni) úr vöðvum og lifur.

Fyrir ferðina er skynsamlegt að fylla „geymana“ (vöðva og lifur) af kolvetnaríkum mat. Þar má tildæmis nefna lasagna með grófum lasagnablöðum, grænmetiskjötsósu og basilolíu eða sítrónumarínerað kúskús með grænmeti og lambakjöti.

Nestið er svo blanda af góðri fitu, kolvetnum og spennandi kryddum. Í nestispokan fer því:

  • Nokkrir skammtar af  kolvetnum eins og t.d. pasta, núðlur, hrísgrjón, flatkökur, tortillur, naanbrauð og gróft brauð.
  • Góð ólífuolía sett í litla plastflösku. Kryddjurtir, mexíkósk kryddblanda og karrý sett í litla poka.
  • Kjúklingar í strimlum, léttpepperóni, skinka, túnfiskur, kavíar, kæfa og ostur
  • Rautt eða grænt pestó og þurrkaðar súpujurtir.
  • Múslí, þurkkaðirávextir, hnetur og súkkulaði.

Á morgnana er gott að fá sér soðið múslí með þurrkuðum ávöxtum, te og brauð. Nesti fyrir daginn getur verið  flatbrauð með kæfu, samlokur með skinku, osti og pestói og brauð með osti og kavíar. Ekki má gleyma naslinu og vökvanum.

Á kvöldin þegar komið er í tjald er hugmyndaflugið notað og búnir til girnilegir réttir;  karrísúpa með núðlum, kjúklingi og súpujurtum,  hnetum stráð yfir. Pastaréttur með með pepperóni, súpujurtum, pestói og kryddjurtum.  Fylltar tortillur með túnfiski, súpujurtum og mexíkósku kryddi, osti stráð yfir. Gott er að nota góða skvettu af ólífuolíu við matartilbúninginn.

Við álagið af göngunni tapast mikið vatn úr líkamanum og ef vökvatap verður of mikið finnum við fyrir þreytu, eymslum og jafnvel vöðvakrampa. Við getum ekki treyst þorstatilfinningunni þar sem hún bælist í kulda og við áreynslu. Nauðsynlegt er að vera alltaf með brúsa af vatni í seilingarfjarlægð (innan á  sér eða í mittispoka) svo auðvelt sé að nálgast vatnið. Þá getur verið ágætt að vera með orkudrykki sem innihalda 6-8% kolvetni og sölt.  Orkudrykki á að nota sparlega, súpa lítið í einu og einungis þegar við erum að reyna verulega mikið á okkur.

Þá er bara að muna eftir góða skapinu, drekka nóg af vöka og njóta matarins.

 

Höfundur greinar