Hugleiðing um aðventuna

Hvað er betra á köldum vetrardegi en að hreiðra um sig uppi í sófa með kakóbolla í annarri hendi og hina höndina á kafi ofan í stórri öskju af smákökum eða konfekti? Það er desember „á þetta, má þetta“ eins og Baggalútur segir í textanum „Sorrí með mig“.

Hjá sumum er „öll“ jólahlaðborðin í desember orðin eins og síðasta kvöldmáltíðin!

Erum við að missa það?

Já, kannski en samt er eitthvað líka svo dásamlegt við desember eins og öll samveran og allir skemmtilegu viðburðirnir sem við förum á í þessum mánuði. Gæðastundir auka hamingju og vellíðan, við þurfum að átta okkur á  hvenær við förum út fyrir rammann, eins og gerist í jólamánuðinum, þannig að við fyllumst ekki af steitu yfir yfirfullri dagskrá aðventunnar og samviskubiti vegna ofneyslu matar og drykkjar. Stundum gerist það að lífsstílinn fær á baukinn af því við setjum kerfið á „ég fylgi bara með og tek ekki ábyrgð á neinu og get því leyft mér allt“ . Veit ekki með þig eða ykkur og hvort þið kannist við þetta en ég geri það svo sannarlega. Þessi grein er einmitt áminning að huga að heilsunni ALLTAF en um leið að njóta lífsins án þess að missa stjórn á sjálfum sér og lífinu.

Komdu með lausn kona og það strax!

Já, lofa og hún er þannig;  við eigum ekki að þurfa að fúlsa við öllum ljúffengum aðventukræsingunum, heldur einfaldlega að gæta hófs, hlusta á líkamann og taka ábyrgð á heilsunni. Það setur ekki allt úr skorðum þótt við gerum vel við okkur í mat og drykk hálfan  jólamánuðinn. Tek það fram að þetta á ekki við þá/þær sem eru að kljást við fíkn, í mat eða drykk, höfum það alveg á hreinu.

Lóan er komin

Þegar hinn svokallaði jólamánuður er liðinn þá fá margir raunveruleikasjokk  „JÓLASVEINARNIR ERU LÖNGU FARNIR TIL FJALLA“ OG „LÓAN ER KOMIN“, þá eru góð ráð dýr og við kaupum köttinn í sekknum eða næstu dásamlegu hugmynd af megrunarkúr eða skráum okkur í maraþon og höfum u.þ.b. 2 mánuði til stefnu. Þetta er kallað ríkisleið Íslands og hún virkar eða ekki. Við erum bara hreinlega meistarar í nýjungakapphlaupi og eigum líklega hvert heimsmetið á fætur öðru í að innleiða allar mögulegar vitleysur sem skjóta upp kollinum í formi tískubylgju í hreyfingu og matarkúrum. Mér er enginn hlátur í huga núna, er ég þó frekar hláturmild og sé spaugilegu hliðar á flestum hlutum,  bara alls ekki þessum. Því hver og ein manneskja skiptir máli og mín ósk er að allir fái að njóta þess besta sem lífið hefur að bjóða.  Það er álag á líkamann að vera að truntast í maraþon illa æfð/ur og einnig að misbjóða líkamanum að missa 15-20 kg á núll komma einni. Það er líka álag á líkamann að setja á sjálfsstýringu í desember og misbjóða honum með því að borða og drekka allt sem að kjafti kemur. Mín tillaga  og lausn er að við tökum ábyrgð á eigin heilsu og setjum hana í forgang.

Njóttu og ekki láta rugla í hausnum þínum

Samviskubit og endalausar umræður um matarkúra og útlit geta gert okkur lífið leitt. Mæli með að sleppa því í desember og bara alltaf því það er svo drepleiðinlegt umræðuefni. Andleg líðan getur sveiflast eins og pendúll í takt við töluna á vigtinni. Ástæðan er að þegar við förum í rugl með matarvenjur okkar þá misbjóðum við boðefnakerfinu og þar að leiðandi getur það haft áhrif á geðheilbrigði okkar. Þetta eru engin geimvísindi þetta er líkaminn okkar frá toppi til táar og allt skiptir máli þ.e. öll neysla og líkamlegt atgervi. Finnum okkar leið til að lifa í jafnvægi, sátt við guð og menn, eða mest þó okkur sjálf.

Vegum gæðastundir

Við viljum ekki missa tökin en með því að vera skynsöm þá gerum við það ekki. Við getum alltaf bætt og lagað uppskriftir en haft jólamatinn eða aðventustundirnar sem við þekkjum áfram með smá dass af skynsemi þ.e. að við þurfum ekki að belgja okkur út og sleppa þar með hollustu og hreyfingu því tjónið er þegar orðið.

Kapphlaup við vigt, tímann eða útlit er ömurlegur tímaþjófur og eins og með jólasveinana og lóuna þá er allt í einu komið að kveðjustund og fram að henni þá vona ég að flest okkar getum notið lífsins sem best. Þegar ég hugsa um aðventuna, langar mig mest að vera í eldhúsinu hjá mömmu og smakka allar smákökurnar sem koma í röðum úr ofninum, sorrí með mig.

Lífið er núna og það eru 12 mánuðir í árinu, ekki gleyma því og gerum ráð fyrir lífinu þ.e. matarboðum, veislum og öðru sem kemur uppá og við þurfum að tækla og hvernig okkar lífsstíll hentar sem best inn í það form.

Aðventukveðja

Beta Reynis.

Næringarfræðingur

Myndin er eftir Jakopo Bassano

Höfundur greinar