Hvað er blómkálseyra

Nafnið Blómkálseyra vísar í útlitið á eyra sem aflagast vegna endurtekinna högga eða áverka og er nokkuð algengt meðal þeirra sem stunda íþróttir þar sem högg eða átök eru algeng.

Hvað veldur blómkálseyra?

Þegar ytri hluti eyrans verður fyrir endurteknum höggum eða áverkum geta blæðingar og skemmdir á vef eyrans safnast fyrir undir brjóskhimnunni. Brjóskið í eyranu hefur aðeins aðgang að blóðflæði í gegnum skinnið sem liggur ofaná því.  Þegar skinnið losnar frá brjóskinu, eða er losað frá brjóskinu vegna blóðpolla, verður skortur á blóðflæði á svæðið sem getur valdið því að brjóskið deyr og sýkingarhætta á svæðinu eykst. Það leiðir síðan til aflögunar á húðinni sem liggur ofan á brjóski ytra eyrans. Þegar þetta gerist verður ytra eyrað varanlega bólgið og afmyndað og minnir á blómkál.

Ef brugðist er fljótt við er hægt að minnka líkur á varanlegri aflögun á eyranu

Áhættuþættir

Blómkálseyru eru algengust hjá fólki sem stundar íþróttir eins og box, glímu, jiu-jitsu, júdó, rugby og blandaðar bardagaíþróttir.  Þó geta allir áverkar á eyru valdið þessu eða jafnvel sýkingar í eyranu.

Sem dæmi geta áverkar á eyrað komið við högg frá andstæðing, þar sem höfuð andstæðings nuddast við eyrað, eða þar sem eyrað kemur harkalega við dýnuna.  Í flestum þessum íþróttum er varnarbúnaður algengur og ráðlagður.

Þessir áverkar geta þó einnig komið fyrir aðra en íþróttamenn.  Þeir geta komið í kjölfar slysa eða gatana á brjóskinu ofarlega í eyranu. Þar getur myndast sýking sem leiðir til blómkálseyra.

Ef ekkert er gert dregst brjósk eyrans saman og útlit eyrans verður aflagað. Ef drep kemst í brjóskið og örvefur myndast er aflögun eyrans oft óendurkræf. Eyrað getur einnig verið fölt að lit vegna skerts blóðflæðis. Í sumum tilfellum er hægt að laga útlit eyrans með lýtaaðgerð.

Einkenni blómkálseyrna

Þar sem blómkálseyru eru oftast vegna áverka á eyrað, eru einkenni oftast tengd því hversu mikill áverkinn á eyrað er.

Algeng einkenni blómkálseyrna eru:

Verkir

Bólga

Mar

Aflögun á útliti ytra eyra

Alvarlegri einkenni blómkálseyrna:

Heyrnarskerðing

Eyrnasuð (tinnitus)

Höfuðverkur

Móðukennd sjón

Bólga í andliti

Mikil blæðing

Ef áverkinn er mikill ætti að leyta læknisaðstoðar strax. Eftir að áverkinn hefur gróið og eyrað er orðið aflagað í útliti geta einkenni verið lítil eða engin nema á útliti eyrans.

Meðferð við blómkálseyra

Markmið meðferðar eru að koma í veg fyrir varanlega skaða á brjóski eyrans með því að hleypa út blóði sem safnast hefur fyrir, meðhöndla sýkingar og minnka bólgur til þess að viðhalda blóðflæðinu til brjósksins í eyranu.

Háls, nef og eyrnalæknar eða lýtalæknar eru sennilega best til þess fallnir að meðhöndla slíka áverka. Mikilvægt er að hitta lækni eins og fljótt og hægt er eftir að áverkinn kemur á eyrað.

Ef meðferðin hefst fljótlega eftir áverkann er ólíklegt að blómkálseyra myndist eftir áverka á eyra. Ef meðferð tefst er erfiðara að koma í veg fyrir varanlegan skaða á eyranu.

Hvernig best er að koma í veg fyrir blómkálseyru

Hjálmanotkun við æfingar og keppni getur komið í veg fyrir áverka á eyru og einnig getur slíkur varnarbúnaður komið í veg fyrir höfuðáverka.

Höfundur greinar