Hvað er síþreyta?

Síþreyta er sjúkdómur sem getur herjað á fólk af báðum kynjum og á öllum aldri, en er algengust meðal yngri kvenna. Stundum fylgir síþreyta í kjölfar flensu, lungnabólgu eða annarrar sýkingar en það er þó langt frá því að vera algilt. Sumir telja sjúkdóm í miðtaugakerfi orsök síþreytu en aðrir að sjúkdómurinn sé aðallega af sálrænum toga. Ekkert er þó vitað með vissu um orsakir síþreytu og hafa tilraunir til að finna skýringu ekki gefið afdráttarlausar niðurstöður.

Síþreyta einkennist af stöðugri þreytu sem byrjar nokkuð skyndilega og getur staðið yfir vikum eða mánuðum saman. Önnur algeng einkenni eru til dæmis hægari hugsun, lélegt minni, einbeitingarleysi, fælni, kvíði, þunglyndi, of lítil eða of mikil svefnþörf, vöðva- og liðverkir, hitaslæðingur, hálsbólga, meiri viðkvæmni fyrir hita og kulda, óvenjulegir höfuðverkir, ljósfælni, óregla á hægðum og munn- og augnþurrkur. Þessi einkenni þurfa þó ekki að vera öll til staðar hjá sama sjúklingnum.

Sálfræðingar hafa verið fengnir til að aðstoða fólk sem þjáist af síþreytu. Léttar líkamsæfingar hafa einnig komið að gagni. Síþreyta hverfur ekki jafn skjótt og hún kom, en flestir fá bata eftir einhverjar vikur eða mánuði, þó til séu tilfelli þar sem þetta ástand varir í meira en ár.

Nánari umfjöllun um síþreytu má lesa á Doktor.is í grein Eiríks Líndals, sálfræðings á geðdeild Landspítalands. Þar er meðal annars að finna gagnleg ráð fyrir síþreytta. Einnig má lesa um síþreytu á heimasíðu Magnúsar Jóhannssonar læknis.
Grein þessi birtist fyrst á Vísindavef HÍ

Höfundur greinar