Kviðverkir eru verkir sem eiga sér stað í kviðnum og geta átt upptök sín hvar sem er milli bringu og grindarhols. Nánast allir finna fyrir einhvers konar kviðverk á lífsleiðinni. Oft getur verið erfitt að greina orsök og afleiðingu þeirra en í fæstum tilfellum þarf að hafa áhyggjur og líða þeir hjá á nokkrum klukkustundum eða dögum. Í sumum tilfellum er um alvarlegri kvilla að ræða og er þá mikilvægt að leita til læknis.
Tegundir kviðverkja
Kviðverkir eru ýmist bráðir (standa yfir í nokkrar klukkustundir eða daga) eða langvinnir (vikur eða mánuðir) og þá geta einkenni komið og farið. Stigvaxandi kviðverkir eru verkir sem versna með tímanum og geta verið merki um eitthvað alvarlegra. Staðbundinn verkur er takmarkaður við ákveðið svæði í kviðnum og er oftast tengdur vandamáli í ákveðnu líffæri. Algengasta orsök staðbundinna verkja er magasár.
Einkenni
Verkir geta verið mjög mismunandi bæði milli einstaklinga og eftir því hvers konar vandamál er til staðar. Verkir geta meðal annars komið fram sem sviðatilfinning, brunatilfinning, seyðingur, stingandi, leiðandi, krampakenndur verkur eða sem þrýstingur. Niðurgangur, hægðatregða, uppþemba og/eða vindgangur eru algeng magavandamál og fylgja því oft krampakenndir verkir.
Orsakir kviðverkja
Orsakir kviðverkja geta verið margar en þær helstu eru:
Meltingartengd vandamál
- Hægðatregða
- Vindgangur
- Uppþemba
- Meltingartruflanir
Kviðvandamál
- Botnlangabólga
- Matareitrun/óþol
- Ristilpokar/bólga
- Gallsteinar
- Nýrnasteinar
- Kviðslit
- Bólgusjúkdómar
- Magasár
Grindarvandamál
- Endómetríósa
- Utanlegsfóstur
- Tíðarverkir/krampar
- Blöðrur á eggjastokkum
- Þvagfærasýking
Brjóstvandamál
- Blóðtappar í lungum
- Lungnabólga
- Hjartaáfall
Ýmis lyf geta valdið bólgum og verkjum í kvið. Lyf á borð við Aspirín, ýmis bólgueyðandi lyf og lyf notuð til að meðhöndla einkenni Alzheimer sjúkdóms geta valdið kviðverkjum.
Greining
Við greiningu kviðverkja er fyrst og fremst fengin sjúkrasaga og einkenni. Eftir skoðun og viðtal við lækni er síðan metin þörf rannsóknum. Rannsóknir geta meðal annars verið:
- Blóðprufa
- Þvagprufa
- Ómskoðun
- Röntgen myndrannsókn
- Maga -og eða ristilspeglun
- Tölvusneiðmynd
- Segulómskoðun
- Þungunarpróf
Meðferð
Meðferð fer eftir undirliggjandi orsök. Mildur kviðverkur hverfur oftast af sjálfu sér innan nokkurra daga og þarf sjaldnast meðferð. Bólgueyðandi verkjalyf, til dæmis Íbúfen, teljast ekki góð til inntöku við kviðverkjum og getur langtímanotkun þeirra valdaið magasári og magablæðingu.
Með breyttu mataræði og lífstíl er hægt að koma í veg fyrir ýmsa kvilla sem geta valdið kviðverkjum.Til dæmis með því að:
- Borða minna í einu
- Borða hægt og tyggja vel
- Drekka volgan vökva
- Forðast fæðutegundir sem valda uppþembu og vindgangi
- Hafa stjórn á kvíða (ef mikill kvíði er til staðar)
- Áfengis og koffín-notkun stillt í hóf
- Regluleg hreyfing
Regluleg hreyfing og trefjar í mataræði geta komið í veg fyrir hægðatregðu og haldið þörmunum gangandi. Þegar hinsvegar trefjum er bætt í mataræðið þarf að passa að drekka vel af vökva svo það myndist ekki hægðatregða. Með reglulegri hreyfingu er einnig hægt að koma í veg fyrir marga sjúkdóma og líkamlega kvilla.
Kviðverkir barna
Allt að 15% barna á aldrinum 5 til 16 ára glíma við viðvarandi kviðverki, sem geta komið og farið. Ein algengasta ástæða þess er hægðatregða. Aðrað ástæður geta verið botnlangabólga, bakflæði, mjólkuróþol, streptókokkar eða þvagfærasýking.
Hvenær á að leita sér læknisaðstoðar
Ef kviðverkir eru viðvarandi, koma aftur með reglulegu millibili eða verkurinn er stanslaus og eða mikill er ástæða til að fara til læknis. Ef verkurinn leiðir út í brjóst, öxl eða háls eða ef einhver vafi er um brjóstverk hafðu strax samband vð 112.
Önnur einkenni sem þarf að fylgjast vel með eru hár hiti, þvagtregða, blóðlitaðar hægðir, stanslaus uppköst og erfiðleikar við að nærast.
Heimildir: Kahn, April. (2021). What’s causing your abdominal pain and how to treat it. https://www.healthline.com/health/abdominal-pain
Padhak, Neha. (2020). Abdominal Pain. https://www.webmd.com/pain-management/guide/abdominal-pain-causes-treatments
Cleveland Clinic. (2020). Abdominal Pain. https://my.clevelandclinic.org/health/symptoms/4167-abdominal-pain
Health Direct. (2021). Abdominal Pain. https://www.healthdirect.gov.au/abdominal-pain
Höfundur greinar
Rebekka Ásmundsdóttir hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar