Langar flugferðir geta verið erfiðar og gott er að undirbúa sig fyrir þær. Einkum getur flug til fjarlægra staða, sem tekur kannski sex klukkutíma eða meir, verið slæmt fyrir blóðrásina. Hefur jafnvel mátt rekja blóðtappa til kyrrsetu á löngum flugleiðum. Hér á eftir koma nokkur heilræði sem bætt geta líðan ferðalanga sem huga á ferðalög til útlanda.
- Þeir sem haldnir eru sjúkdómum eða taka lyf reglulega ættu að ráðfæra sig við lækni sinn áður en haldið er af stað. Einnig getur læknir ráðlagt um fyrirbyggjandi aðgerðir til að minnka líkur á blóðrásartruflunum.
- Athuga hvort þörf sé á bólusetningum eða annarri fyrirbyggjandi meðferð.
- Forðast streitu með því að fara tímanlega út á flugvöll.
- Nota kerrur og önnur hjálpartæki við að flytja farangur.
- Vera í þægilegum ferðafötum og skóm.
- Fara í létta göngu í flugstöðinni meðan beðið er eftir brottför.
- Forðast þungar máltíðir.
- Drekka vatn, helst lítið í einu en oft.
- Drekka áfengi, kaffi og te í hófi eða alls ekki.
- Hreyfa sig öðru hverju meðan á flugi stendur.
- Gera léttar æfingar í sætinu. Til dæmis fyrir háls, herðar, ökkla, kálfa, bak og mjaðmir bæði með því að liðka liðamót og teygja úr vöðvum. Þetta er sérstaklega brýnt á löngum flugleiðum.
- Reyna að sofa eða hvílast.
- Nota tækifærið og teygja úr sér og ganga um meðan beðið er eftir farangri.
- Ef börn eru með í för þarf að gæta sérstaklega vel að líðan þeirra og tryggja þeim hæfilega blöndu af hreyfingu, skemmtun og ró.
Greinin var uppfærð 24.febrúar 2020 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi
Höfundur greinar
Doktor.is
Allar færslur höfundar