Lifrin

Lifrin er einn stærsti kirtill líkamans og vegur ca 1,4 kg í meðal manni. Hún skiptist í tvö lifrarblöð og er hægra megin ofarlega í kviðarholinu þar sem hún er varin af rifbeinum. Lifirin þjónar mörg hundruðum hlutverka. Meðal þeirra helstu er framleiðsla blóðprótína sem eru nauðsynleg fyrir t.d. blóðstorknun, súrefnisflutning og starfsemi ónæmiskerfis. Hún viðheldur eðlilegu blóðsykursmagni í blóði með því að breyta glúkósa í fjölsykruna glýkógen þegar blóðsykurinn er hár en öfugt er farið þegar blóðsykurinn er lágur, þá er glýkógenið brotið niður í glúkósa. Einnig geymir hún umframmagn af næringarefnum á borð við járn, fituleysanlegu vítamínin A, D og K og vatnsleysanlegu vítamínin fólsýru og B12 og skilar sumum þeirra aftur til blóðrásar eftir þörfum. Hún myndar gall sem er nauðsynlegt fyrir meltingu fitu í fæðunni og sér um efnaskipti kolvetna, fitu og prótína. Að auki er hún afeitrunarstöð líkamans og sér um að fjarlægja hættuleg efni úr blóðinu eins og lyf, áfengi, skordýraeitur, hormón sem og öll önnur eiturefni sem við setjum á og í líkamann okkar. Því er mikilvægt að hugsa vel um lifrina með því að vanda valið á matvælum, drykkjum og snyrtivörum.

Ef lifrin starfar ekki rétt fara eiturefnin, sem hún á annars að hreinsa, að hlaðast upp og komast óhindrað útí líkamann. Einkenni geta t.d. verið óeðlileg þreyta, gul augu og húð, útbrot, kláði í húð, uppköst, minnkuð matarlyst, breytt bragðskyn ofl

Algengustu lifrarssjúkdómar eru fitulifur, lifrarbólga og skorpulifur.

Fitulifur er þegar fita safnast í lifrarfrumurnar. Er oftast meinlaus og flokkast þá ekki sem sjúkdómur en hún getur verið merki um alvarlegan sjúkdóm sem getur leitt til lifrarbilunar. Það fer eftir því hver orsökin fyrir fitusöfnuninni er. Algengustu orsakirnar eru mikil áfengisnotkun, offita eða sykursýki. Aðrar orsakir geta verið næringarskortur, berklar, þarmaaðgerðir vegna offitu, eiturefni eða lyf.

Lifrarbólga er flokkuð í 5 flokka

  • Lifarbólga A og E. Dreifast með saurmenguðu vatni og mat.
  • Lifrarbólga B er kynsjúkdómur en getur líka smitast frá móður til barns.
  • Lifrarbólga B og C smitast ofast með blóði og eru því algeng sýking hjá eiturlyfjanotendum sem deilda nálum.
  • Lifrarbólga D getur aðeins sýkt þá sem eru nú þegar með lifrarbólgu B. Veiran er óalgeng í vestrænum ríkjum en hættuleg.

Algengasta orsök lifrarbólgu eru veirur. Aðrar orsakir geta verið áfengissýki, sum lyfi, eiturefni, aðrar sýkingar, sjálfsofnæmissjúkdómar og fitulifur.

Skorpulifur er lokastig í þrálátum lifrarsjúkdómi og lýsir sér í myndun örvefs í stað heilbrigðra lifrarfrumna og lélegri lifrarstarfsemi í kjölfarið. Þessi örvefur hindrar blóðflæði til lifrarfrumnanna og þær geta ekki sinnt hlutverkum sínum. Skorpulifur er óafturkræf og miklir, alvarlegir fylgikvillar geta fylgt í kjölfarið. Helsta orsök skorpulifur er lifrarbólga B og C, veirusýkingar og áratuga löng misnotkun áfengis. Eins geta sjálfsónæmislifrarbólga, sum lyf og erfðasjúkdómar haft áhrif.

Höfundur greinar