Markmiðssetning

“Markmiðssetning er farartækið sem flytur þig á drauma áfangastaðinn.”

Að setja sér markmið 

Hversu oft býrðu þér til og ferð yfir markmiðin þín? Við vitum öll að það að setja sér markmið er gott en gerum okkur kannski ekki grein fyrir því hve mikilvæg þau eru í gegnum lífið. Markmiðssetning þarf ekki að vera íþyngjandi eða leiðinleg. Að setja sér markmið hjálpar fólki að aðlaga sér nýjan vana og eykur einbeitingu og skriðþunga í lífinu. Markmiðssetning er nauðsynleg því hún getur hjálpað þér að einblína á það sem virkilega skiptir þig máli.

Af hverju að setja sér markmið?

Afreks íþróttafólk, viðskiptafólk sem og afreksfólk á öllum sviðum setur sér markmið. Markmiðssetning gefur þér skammtíma markmið og langtíma sýn. Hún gerir fólki kleift að stjórna tíma sínum betur og kynnast færnigetu sinni.

Árangursrík markmiðssetning hvort sem hún er til að afla þekkingar, taka upp ný áhugamál eða rækta sambönd, er grundvöllur velgengni. Markmiðssetning leyfir fólki að vaxa, blómstra og skapa sína eigin framtíð. Árangur jafngildir hamingju og fyrsta skrefið til að ná árangri er að setja sér skýra áætlun og markmið. Lífið snýst ekki um að ná þeim markmiðum sem sett eru, heldur um það hver þú þarft að verða til að ná markmiðinu.

Kostir þess að setja sér markmið

 • Veitir þér stefnu og leiðsögn
 • Hjálpar þér að einblína á það sem skiptir þig máli
 • Gefur þér sýn á framtíðina og veitir þér ákveðna stjórn á lífi þínu
 • Veitir þér hvatningu
 • Eykur sjálfstraust
 • Gefur þér persónulega ánægju og staðfestu
 • Gefur þér tilgang í lífinu

Hvernig setur þú þér markmið?

Ein helsta ástæða þess að einstaklingar ná ekki markmiðum sínum, er sú að þeir gleyma að skipuleggja skrefin sem liggja í áttina að markmiðinu.

Hér eru fimm skref sem hjálpa þér að komast nær þínu markmiði:

 1. Hugsaðu um þá niðurstöðu sem þú vilt sjá

Áður en þú setur þér markmið getur verið gott að skoða hvað þú vilt afreka og spyrja sjálfa/n þig hvort þetta sé eitthvað sem þú virkilega vilt, og hvort þú sért tilbúin/n að fórna klukkustundum og erfiðisvinnu til að ná því. Ef þú ert með langan lista af markmiðum sem þú vilt ná, getur verið árangursríkast að byrja á einu í einu, jafnvel því sem þú telur vera mikilvægast.

 1. Notaðu “SMART” hugtakið

Þegar þú hefur valið markmið, vertu viss um að það sé “SMART”.

S: Skýrt/sértækt Markmiðið þarf að vera skýrt og nákvæmt.

M: Mælanlegt Skilgreindu hvernig þú getur metið eða mælt árangurinn.

A: Aðgerðaráætlun Hvernig ætlarðu að ná markmiðinu og hvað þarftu að gera til að ná því?

R: Raunhæft Er markmið þitt raunhæft og sérður fram á að ná því innan ákveðins tímaramma?

T: Tímasett Mikilvægt er að setja ákveðinn tímaramma kringum markmiðið, sú skuldbinding hvetur þig áfram til að ná markmiðinu.

 1. Skrifaðu markmiðið niður

Þegar þú hefur skrifað markmiðið niður verður það raunverulegra heldur en þegar þú geymir það í huganum.

 1. Taktu af skarið!

Þegar þú hefur sett þér markmið á þennan hátt er ekkert eftir nema að hefjast handa og taka af skarið! Það getur reynst mörgum erfitt en þú fórst ekki í gegnum allt þetta skipulag til þess að gleyma markmiðinu þínu. Nú er tími til að sýna og sanna fyrir sjálfri/sjálfum þér hvað í þér býr. Eins og flestir kannast við að það breytist ekkert ef fólk heldur áfram í sama farinu.Til að ná fram breytingum í lífinu þarf stundum að fara út fyrir boxið, prufa nýja hluti og gera þær breytingar að vana.

 1. Farðu yfir og settu mat á árangurinn

Til að ná markmiðinu þarftu að hvetja þig áfram, það gerir það enginn fyrir þig. Skipulegðu tíma einu sinni í viku og farðu yfir það sem þú hefur áorkað sem og það sem þú gætir gert betur. Notaðu “SMART” og skoðaðu hvar þú ert stödd/staddur í aðgerðaráætluninni. Þegar þú sérð þig færast nær marklínunni eykst hvatning þín og sjálfsánægja. Ef þú ert á eftir áætlun gætirðu þurft að lagfæra planið til að ná markmiðinu innan þíns tímaramma.

Gangi þér vel!

“Það skiptir ekki máli hvar við erum stödd, heldur í hvaða átt við stefnum. Tækifærin eru út um allt, við þurfum því aðeins vera vakandi fyrir þeim.” – Brian Tracy

Höfundur greinar