Nýlegar rannsóknir sýna að ólífuolía, sojabaunir, bláber, omega-3 s.s. fiskolía (lýsi) og hörfræolía geta verið góð fyrir beinin. Frekari rannsókna er þó þörf til að staðfesta að tengsl séu á milli þessara fæðutegunda og góðrar beinheilsu. Þekkt er þó að þær eru góðar fyrir heilsuna og því sjálfsagt að velja þær í fæðuna okkar.
Fleiri góð ráð
Baunir. Baunir innihalda kalk, magnesíum, trefjar og fleiri næringarefni en einnig svokölluð fýtöt. Fýtöt hafa hamlandi áhrif á líkamann til þess að vinna kalkið úr baununum. Unnt er að draga úr áhrifum fýtata með því að leggja baunirnar í bleyti í nokkrar klukkustundir (eða yfir nótt) áður en þær eru soðnar í fersku vatni.
Kjöt og próteinríkur matur. Mikilvægt er að fá nóg af próteinum fyrir beinin og heilsuna almennt en þó ekki of mikið. Margt eldra fólk fær ekki nægjanlegt prótein úr fæðunni og það getur haft slæm áhrif á beinin. Hinsvegar getur fæða sem inniheldur mjög mikið prótein í hverjum skammti s.s. rautt kjöt leitt til þess að líkaminn tapi kalki. Hægt er að bæta sér upp þetta tap með því að fá kalk úr mjólkurvörum því þó svo að þær séu próteinríkar þá innihalda þær einnig kalk sem er mikilvægt fyrir beinin.
Saltur matur. Neysla á söltum mat veldur því að líkaminn missir kalk og getur það valdið beintapi. Ráðlagt er að takmarka neyslu á unnum matvörum, dósamat og saltríkum mat. Fólk skyldi venja sig á að lesa innihaldslýsingar og næringarupplýsingar á matarpakkningum.
Spínat og önnur fæða rík af oxalsýru. Líkaminn getur ekki með góðu móti unnið kalk úr fæðu með mikilli oxalsýru s.s. spínati. Aðrar fæðutegundir sem eru ríkar af oxalsýru eru rabarbari, rótargrænmeti og ákveðnar baunategundir. Þær innihalda önnur holl og góð næringarefni þótt þær séu ekki kalkgjafar.
Grófar kornafurðir. Líkt og baunir, þá er hlutfall fýtata hátt í grófum kornafurðum sem kemur í veg fyrir úrvinnslu líkamans á kalki. Hins vegar, ólíkt baunum, eru heilar grófar korntegundir eina fæðutegundin sem virðist minnka vinnslu kalks úr öðrum fæðutegundum sem neytt er á sama tíma. Dæmi: Þegar þú drekkur mjólk og borðar 100% heilkornamorgunkorn samtímis þá getur líkaminn aðeins nýtt sér hluta af kalkinu úr mjólkinni. Í kornfæðu eins og t.d. brauði er ekki eins mikið af heilu korni og áhrifin á kalkvinnsluna síður merkjanleg.
Alkóhól og koffín
Alkahól. Mikil áfengisneysla getur leitt til beintaps
Koffín. Kaffi, te og gosdrykkir innihalda koffín sem getur leitt til þess að frásog kalks minnkar og getur þannig leitt til beintaps. Þessa drykki þarf að neyta í hófi.
Gosdrykkir. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að neysla kóladrykkja, ekki annarra gosdrykkja, geti tengst beintapi. Þörf er á fleiri rannsóknum til þess að skilja betur í hverju þessi tengsl geta verið fólgin.
Kolsýringin í gosdrykkjum veldur ekki neinum skaða á beinum og slíkir drykkir eru hvorki hollir né næringarmiklir en hins vegar ríkir af hitaeiningum.
Grein þessi er fengin frá Beinvernd og birtist með góðfúslegu leyfi þeirra
Höfundur greinar
Beinvernd
Allar færslur höfundar