Nærumst vel á nýju ári

Hvað þarf til þess að nærast vel? 

Mikilvægt er að borða nóg til þess að auka möguleika okkar á að fá nóg af trefjum, vítamínum og steinefnum. Til þess að þetta sé hægt er aldrei ráðlagt að fylgja megrunarkúrum, föstum né einhverju sem skerðir ýmist fæðuinntöku eða fæðutegundir. Ef við skerðum fæðuinntöku t.d. með því að fasta, eða reyna að minnka matarskammta þá lækkum við brennslu líkamans sem getur varanlega leitt til þess að brennsla okkar sé skert ásamt því að maður tapar einnig vöðvamassa. Ef við skerðum fæðutegundir t.d. með því að fara á kúr sem bannar neyslu á fæðutegundum, t.d. ketókúr/lágkolvetnakúr þar sem kolvetni eru skert, eða paleó þar sem unnar vörur eru skertar þá tökum við einnig út möguleika líkamans á að fá næringarefni úr þeim fæðutegundum sem teknar eru úr fæðunni. Þetta er ástæða þess að það er alltaf best að borða fjölbreytta fæðu úr öllum fæðuflokkum. 

Gott máltíðamunstur 

Gott máltíðamunstur felst í því að næra líkamann reglulega yfir daginn, t.d. þrjár aðalmáltíðir og 2-3 millibitar yfir daginn. Að borða með þessum hætti hefur sýnt í rannsóknum að leiði til jafnari orku yfir daginn, minnkar líkur á átköstum seinnipart dags. En átköst eru lífeðlisfræðilegt viðbragð líkamans við skertri inntöku matar og er líkaminn þannig að reyna að gefa okkur besta möguleikann á að fullnægja þörf okkar fyrir orkuefni, vítamín og steinefni. 

Fæðubótaefni  

Janúar er aðal sölumánuður fæðubótarefna, svo sem vítamína, steinefna og fleira. Ef við borðum nokkuð reglulega og fjölbreytt yfir daginn þá eigum við ekki að þurfa að taka nein fæðubótarefni NEMA D-vítamín og  þar þurfum við ekki nema 400 AE (IU)/10 til 9 ára, 600 AE (IU)/15 µg á dag frá 10 ára til 70 ára aldurs, og 800 AE (IU)/20 µg á dag eftir 70 ára aldur. Söluaðilar fæðubótaefna eru hagnaðardrifin og ala á ótta um að við séum einhverra hluta vegna ekki að fá nóg úr fæðunni og reyna að selja okkur hugmyndina af því að við nauðsynlega þurfum á þeim að halda. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að svo sé ekki og að við getum valdið skaða með því að taka fæðubótarefni inn að óþörfu. Best er að fá allt það sem við þurfum úr fæðunni að undanskildu D-vítamíns.  

Setjum inn, ekki taka út 

Aldrei er talið ráðlagt að taka neitt úr fæðunni, betra er að setja áherslu á að koma góðum hlutum inn. Til dæmis væri gott fyrir flesta að bæta aðeins í grænmetis og ávaxtaneyslu og reyna að finna leiðir til þess að gera það. Góð ráð til þess að bæta inn grænmeti og ávöxtum er t.d. að sneiða grænmeti eða ávexti niður og setja ofan á brauð, hafa sem snarl á milli máltíða eða setja út á morgunmat.  

Minnkum streitu gagnvart mat  

Að fá samviskubit yfir einhverju sem við borðum getur leitt til streituviðbragða í líkamanum og hækkað bólguviðbrögð, sem svo getur aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og getur einnig ýtt undir þunglyndi og kvíða. Það að vera slakur gagnvart mat er það sem er allra best fyrir okkar heilsu og því er gott að falla ekki fyrir nýjustu kúrunum sem tröllríða heiminn á þessum tíma árs sem engin getur fylgt til lengdar hvort eð er. Njótum matar, bætum inn hlutum sem eru góðir fyrir okkur og reynum þannig að bæta líðan og mataræði án öfga. 

Slökunar og næringarríkar kveðjur 

Höfundur greinar