Spurningar og svör um fuglaflensu

Spurning
Er óhætt að ferðast til landa þar sem fuglaflensa hefur verið staðfest?
Svar
Já, það er alveg óhætt. Líkur á smiti fyrir hinn almenna ferðamann eru nánast engar. Hollráð fyrir ferðamenn má finna á heimasíðu Landlæknisembættisins.

Spurning
Í hvaða löndum hefur fuglaflensa komið upp?
Svar
Bestar upplýsingar um lönd með fuglaflensusmit er að finna á vefsetri Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnunarinnar OIE. 

Spurning
Hver er hættan á smiti fyrir hinn almenna borgara?
Svar
Hætta á smiti fyrir hinn almenna borgara er nánast engin.

Spurning
Hvernig smitast fuglaflensa í menn?
Svar
Fuglaflensa er sjúkdómur í fuglum og berst á milli fugla. Í einstaka tilfellum smitast hún yfir í menn. Einungis þeir sem eru í náinni snertingu við sýkta fugla eða saur og aðra líkamsvessa (t.d. blóð eða slím) sýktra fugla geta átt á hættu á að smitast af fuglaflensu. Ekkert bendir til að fuglaflensa smitist manna á milli.

Spurning
Er í lagi að borða fuglakjöt í löndum þar sem fuglaflensa hefur verið staðfest?
Svar
Já, það er alveg óhætt ef kjötið er hitameðhöndlað (soðið, steikt, grillað, ofnbakað). Inflúensuveiran drepst við hitameðhöndlun, hitun í 60°C í 30 mínútur nægir til að drepa veiruna. Allar hefðbundnar eldunaraðferðir duga því til að drepa veiruna.

Hins vegar ber að koma í veg fyrir krossmengun til annarra matvæla við matreiðslu fuglakjöts á meðan það er hrátt. Með krossmengun er átt við smit frá menguðum matvælum með höndum eða verkfærum yfir í önnur matvæli. Ekki skal neyta hrás fuglakjöts.

Spurning
Er óhætt að borða hrá egg?
Svar
Nei, fuglaflensan hefur greinst í nágrannalöndum okkar og líkur eru á því að hún berist hingað innan skamms. Fuglaflensuveiran getur lifað í eggjum og því ber að sjóða, baka eða steikja eggin áður en þeirra er neytt.

Spurning
Er hægt að smitast af villtum fuglum?
Svar
Smiti frá villtum fuglum yfir í menn hefur ekki verið lýst og líkur á því eru hverfandi. Veiran magnast ört í alifuglabúum þar sem margir fuglar eru saman í húsunum. Minna veirumagn er hins vegar í villtum fuglum úti í náttúrunni samanborið við fugla í alifuglabúum. Því er hættan á smiti fyrst og fremst frá sýktum alifuglum.

Spurning
Er veira til staðar í saur sýktra fugla?
Svar
Já, fuglar skilja út mikið magn veiru í saur. Það er því full ástæða til að þvo sér um hendur og bera á þær spritt ef svo ólíklega vill til að hendur mengist með saur fugla.

Spurning
Er óhætt að gefa öndunum brauð?
Svar
Já, það er alveg óhætt, líka eftir að fuglaflensan er komin til landsins. Hins vegar skal brýna fyrir börnum að snerta ekki dauða eða sjúka fugla og forðast fugladrit.

Spurning
Er hægt að smitast af fuglaflensu við dúntekju?
Svar
Líkur á smiti við dúntekju teljast afar litlar. Þegar fuglaflensan hefur greinst á Íslandi er hins vegar ráðlegt að vera með einnota hanska eða gúmmihanska sem hægt er að þrífa við dúntekju og þvo sér vel eða bera spritt á hendur eftir að hanskar hafa verið fjarlægðir.

Spurning
Eru skotveiðimenn sem veiða fugla í mikilli smithættu?
Svar
Nei, þeir eru það ekki, en þó er ráðlegt að gæta vissrar varúðar ef fuglaflensan berst hingað. Forðast skal að skjóta fugla sem gætu verið veikir. Ráðlegt er að vera með einnota hanska eða gúmmihanska sem auðvelt er að þrífa þegar fuglarnir eru handleiknir og verkaðir. Að verkinu loknu skal fjarlægja hanskana og þvo sér um hendur með sápu og vatni eða bera á þær spritt.

Birt á vef Landlæknis og birtist hér með góðfúslegu leyfi þeirra

Höfundur greinar