Spurningar og svör um psoriasis

Efnisyfirlit

Hvað er psoriasis


Psoriasis er langvinnur húðsjúkdómur. Ef þú hefur einu sinni fengið psoriasisútbrot geta þau brotist fram aftur og aftur hvenær sem er ævinnar. Mjög mismunandi er hve oft fólk fær útbrot. Sumir hafa meira og mynna stöðug einkenni á meðan aðrir fá e.t.v. einungis einkenni á margra ára fresti.

Hvernig líta psoriasis útbrotin út?

Útbrotin geta birst á margan hátt. Oftast er um að ræða skellur sem líkjast mynt. Skellurnar eru rauðar, örlítið upphleyptar og oft þaktar hvítu hreystri. Þær eru algengastar á stöðum sem verða fyrir álagi svo sem á olnbogum og hnjám. Þessi tegund psoriasis getur breiðst út og runnið saman í stærri svæði. Oft er um að ræða svipuð útbrot í hársverði sem geta þá leitt til flösu. Á nöglum koma oft fram mismunandi breytingar. Ein tegundin minnir á yfirborð fingurbjargar, í öðrum tilvikum losna neglurnar frá eða þykkna og einnig getur verið um að ræða gulleit svæði líkt og olíudropar séu undir nöglinni.

Önnur gerð psoriasis brýst oft fram við sýkingar í hálsi. Þá er um að ræða sérstaka gerð útbrota, s.k. dropapsoriasis (guttate psoriasis). Þessi tegund gengur frekar yfir en aðrar tegundir psoriasis. Í þessum tilvikum er mikilvægt að meðhöndla undirliggjandi sýkingu í hálsinum með sýklalyfjum. Stundum getur reynst nauðsynlegt að gefa sjúklingum með aðrar tegundir að psoriasis sýklalyf ef þeim versnar við sýkingar af völdum hálsbólgubaktería. Slíkar sýkingar geta valdið vægum einkennum frá hálsinum. Ef psoriasissjúklingi versnar skyndilega er ráðlagt að láta taka sýni til ræktunar frá hálsinum.

Hvers vegna kemur psoriasis sjúkdómurinn fram?


Í psoriasissjúkdómnum sést óeðlileg þroskun og of hröð frumuskipting í frumum yfirhúðar sem líklega stafar af breyttum eiginleikum varðandi vöxt og þroska þessara fruma. Í psoriasisútbrotum er einnig íferð bólgufruma sem sennilega skýrist af því að frumur yfirhúðar losa frumboðefni og önnur efni sem hafa áhrif á ónæmis og bólgusvörun

Ýmsar kenningar eru á lofti til að reyna að skýra þetta. Á seinni árum hafa menn helst aðhyllst að um sé að ræða eins konar ónæmissvörun sem síðan leiði til sjálfsónæmis og mismunandi ytri þættir geti kallað sjúkdóminn fram. Þeir sem ekki verða fyrir slíku áreiti fá ekki alltaf sjúkdóminn jafnvel þó að þeir hafi erft psoriasis tilhneiginguna. Hálsbólgusýking getur m.a. kallað fram psoriasissjúkdóminn og sennilega er um fleiri þætti að ræða.

Ekki hefur með öryggi tekist að sýna fram á hvernig sjúkdómurinn erfist. Nýlegar rannsóknir á genum benda þó til fjölþátta erfða og líklegt er að genin sem valda psoriasis verði brátt fundin. Ef annað foreldranna hefur psoriasis eru 15% líkur á að barn fái psoriasis. Ef báðir foreldrar hafa psoriasis eru líkurnar hinsvegar 50%.

Hvaða þættir geta kallað fram psoriasis útbrotin?


Sýkingar, sérstaklega hálsbólga. Leitaðu alltaf strax læknis ef þú hefur einkenni frá hálsi og/eða psoriasisútbrotin versna skyndilega. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að taka sýni til ræktunar frá hálsinum. Andlegt álag (stress) getur einnig valdið því að útbrotin brjótast fram. Áfengi. Í flestum tilvikum versnar sjúkdómurinn við áfengisneyslu.

Ýmis lyf, þ.á.m. betablokkarar (flokkur lyfja sem m.a. eru notuð við of háum blóðþrýstingi), litíum (lyf gegn þunglyndi), karbamazepín (flogaveikilyf) og sum malaríulyf. Ráðfærðu þig við lækninn. Þungun getur valdið því að sjúkdómurinn versni og batni.

Hefur fæðan áhrif á sjúkdóminn?

Svarið við þessari spurningu er ekki þekkt að fullu. Líklega skiptir fæðan ekki miklu máli í þessu sambandi. Vissar rannsóknir sem enn eru á frumstigi benda til að fiskneysla og lýsi geti verið gagnleg í sumum tilvikum.

Er hægt að meðhöndla psoriasis?

Já, framfarir í meðhöndlun á psoriasis hafa verið miklar á undanförnum árum. Í flestum tilvikum er þó ekki hægt að lækna sjúkdóminn varanlega, heldur eingöngu að bæla einkennin. Psoriasisútbrotin geta brotist fram aftur eftir að meðferð er hætt. Mörg dæmi eru þó um sjúklinga sem hafa fengið bata í marga mánuði eða ár eftir vel heppnaða meðferð.

Það er mjög mismunandi hvaða meðferð hentar hverjum og einum. Sama meðferðin hentar ekki alltaf til langframa. Því getur verið mikilvægt að skipta öðru hverju um meðferð. Mikilvægt er að meðferðin sé regluleg. Læknirinn þinn ráðleggur þér hvaða meðferð hentar best. Gróflega má skipta meðferð gegn psoriasis í þrjá flokka: útvortis meðferð; ljósameðferð og töflumeðferð.

 

 

 

Heimild: Oxholm Annemette, Sigurgeirsson Bárður. Spurningar og Svör um Psoriasis.

Lovens kemiske fabrik, 1997. www.cutis.is

Höfundur greinar