Streita og Yoga

Streita er ein af okkar stærstu heilsufarsógnum og því til mikils að vinna að finna leiðir til að höndla álag og streitu betur ?
Hér kemur örpistill um streitu og hvernig Yoga Nidra hjálpar okkur að vinna gegn streitu?

Nútíma lífstíll einkennist oft á tíðum af hraða, álagi og streitu. Það getur verið krefjandi að vera manneskja í þessari flóknu tilveru því verkefnin eru mörg og okkur gengur misvel að leysa úr þeim. Flest höfum við bjargráð og úrræði og náum að höndla álag og áreiti sem við erum útsett fyrir nánast daglega. Hinsvegar erum við misjöfn og með missterkt taugakerfi og þ.a.l. þolum við álag misvel. Fari streitan úr böndunum eða er langvarandi þá getur ójafnvægi skapast og of mikil spenna myndast innra með einstaklingnum. Mikilvægast fyrir heilsu okkar er að jafnvægi ríki á milli spennu og slökunar.

Hvernig virkar kerfið?

Við höfum innbyggt kerfi sem á að viðhalda þessu jafnvægi á milli spennu og slökunar og þar á ég við ósjálfráða taugakerfið (autonomiska taugakerfið). Það skiptist í tvo hluta:
#Sympatíska kerfið= BENSÍNGJÖFIN. Örvandi hluti taugakerfisins sem sér um að virkja flóttaviðbragðið okkar (fight or flight).#Parasympatíska kerfið= BREMSAN. Slakandi hluti taugakerfisins sem tekur yfir þegar hættan/álagið er liðið hjá.
Það má segja að kerfið sé með bensingjöf og bremsu og er ætlað að hjálpa okkur að ná stjórn eftir mikla keyrslu/streitu. Hinsvegar erum við mörg hver föst á bensíngjöfinni og náum ekki að stíga á bremsuna. Bremsubúnaðurinn er hreinlega bilaður.

Afleiðingar

Þegar þessar aðstæður skapast getur streitan farið að hafa óæskileg áhrif á heilsu okkar. Krónískt stress er alvarlegur hlutur og sjúkdómar af völdum streitu þróast hægt og sígandi. Vandamál eins og kvíði, svefntruflanir, höfuðverkur, vöðvabólga og meltingartruflanir geta farið að gera okkur lífið leitt og draga úr lífsgæðum okkar.
Hér kemur Yoga Nidra að miklu gagni því að með reglulegri iðkun virkjum við og vinnum með slakandi hluta taugakerfisins (parasympatíska kerfið). Smám saman förum við að ná stjórn á aðstæðum, stígum á bremsuna og förum úr keyrslunni inn í kyrrðina. Við kennum líkamanum og huganum að slaka á og ná innri kyrrð og ró. Ávinningurinn af Yoga Nidra getur því verið aukið úthald og viðnám gegn streitu. Einnig bættur svefn, minni kvíði og almenn líkamleg og andleg vellíðan.
Yoga Nidra er því öflugt verkfæri til að vinna gegn streitu og til að skapa innra sem ytra jafnvægi.

„Find stillness with Yoga Nidra“

Að sjálfsögðu þarf meira til og gott er að hafa í huga að öll hreyfing er streitulosandi og nauðsynleg til að viðhalda heilbrigði. Einnig er rútína, góð hvíld og nægur svefn alltaf jafn mikilvæg til að halda streitu í skefjum.
Hlustum á líkamann okkar og finnum okkar leið.

Höfundur greinar