Tannheilsa

Góð tannheilsa er gríðarlega mikilvæg og getur haft mikil áhrif á ýmsa þætti tengda lífsgæðum hjá okkur, því er mikilvægt að byrja að stuðla að góðri tannheilsu strax á ungaaldri. Það eru nokkrir þættir sem spila stórt hlutverk þegar að kemur að góðri tannheilsu en þar inní geta spilað erfðir, dagleg tannhreinsun, reglulegt eftirlit hjá tannlækni og síðan matar-og drykkja venjur.

Tannburstun /tannhirða

Mikilvægt er að byrja að tannbursta tennur um leið og þær fara að rjúfa góminn, og getur jafnvel verið sniðugt að byrja að kynna barnið fyrir tannburstanum fyrr. Tannbursta ætti tvisvar á dag, kvölds og morgna, í um tvær mínútur í senn. Einungis ætti að nota jafngildi ¼ af nögl litla fingurs af tannkremi fyrir börn upp að 3ja ára aldri, jafngildi naglarinnar á litla fingri frá 3-5 ára aldurs og um 1cm af tannkremi frá 6 ára og upp úr. Athugið að styrkleiki tannkrema er einnig mismunandi eftir því við hvaða aldur er miðað, en upp til 5 ára aldurs ætti að miða við 1000-1350 ppm F og eftir það um 1350-1500ppm F, aldrei ætti að nota tannkrem sem inniheldur undir 1000ppm af flúori.  Mælt er með því að byrja að nota tannþráð um leið og hliðarfletir tannanna eru farnir að liggja þétt upp við hvorn annan. Flúor skol ætti síðan að nota 1-2 sinnum í viku, en best er að gera það að kvöldi til þar sem að mælt er gegn því að borða í amk. 1-2 klst eftir flúorskolun. Hvorki þarf að skola munninn eftir tannburstun eða flúor skolun, heldur dugar að skyrpa og leyfa restinni af flúorinu að liggja á tönnunum.

Tannlæknaþjónusta

Fyrsta heimsókn til tannlæknis ætti að vera í kringum tveggja til þriggja ára aldurinn, og eru tannlækningar barna upp að 18 ára aldri gjaldfrjálsar, að undanskildu 2500kr. komugjaldi sem greitt er einu sinni á 12 mánaða tímabili.  Misjafnt er hversu mikið eftirlit börn þurfa og ætti því að fylgja ráðleggingum tannlæknis um með hversu miklu millibili ætti að bóka komur til tannlæknis fyrir börn. Á fullorðinsaldri er mælt með því að koma í eftirlit hjá tannlækni á um 12 mánaða fresti eða eftir leiðbeiningum tannlæknis. Mikilvægt er að hafa í huga að fylgja ráðleggingum tannlæknis um endurkomur þar sem reglulegt eftirlit er mjög mikilvægt þrátt fyrir að ekki séu skemmdir á tönnum.

Mataræði / Drykkir

Hollt og fjölbreytt mataræði er gott fyrir heilsuna almennt sem og tennurnar. Mælt er með því að borða fjölbreytta fæðu úr öllum fæðuflokkum, ásamt því að drekka að mestu vatn og halda sykri í lágmarki. Vatn er sá drykkur sem er hvað bestur fyrir tennurnar, en drykkir með lágt sýrustig svo sem gosdrykkir, íþróttadrykkir, ávaxtasafar o.fl. eru talin helsta ástæða fyrir eyðingu glerungs. Sýrurnar í þessum drykkjum geta flett glerungnum af tönnunum og þannig eytt ysta lagi hans. Einnig er mælt með því að draga úr næturgjöfum hjá ungabörnum þegar að tanntaka hefst og bjóða frekar vatnssopa á næturnar ef færi gefst.

Höfundur greinar