Iðjuþjálfafélag Íslands hefur staðið fyrir skólatöskudögum í september undanfarin ár. Markmið þessara daga er að vekja athygli á mikilvægi þess hvernig börnin okkar nota skólatöskurnar sínar. Þau bera skólatöskur 180 daga á ári í allt frá 10 árum. Skólatöskudagar eru bara byrjunin á því hvernig við getum bætt vinnuumhverfi okkar, heilsu og líðan. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að taka ábyrgð á eigin heilsu og umhverfi. Við erum alltaf að skapa okkur venjur og vanamunstur og það er mikilvægt að byggja upp góðar venjur strax í byrjun.
Það skiptir ekki máli hversu góðar skólatöskur við kaupum handa börnunum okkar ef að þau nýta sér ekki stillimöguleika eða kunna ekki að bera töskurnar sínar þannig að þær valdi ekki álagi. Alveg eins og það er alveg sama hversu góðan skrifstofustól við kaupum ef við sitjum alltaf eins í honum og breytum aldrei um stellingu.
Foreldrar og aðstandendur þurfa að sjálfsögðu að styðja þau og styrkja í þessu sem öðru og því læt ég fylgja hér smá bút úr leiðbeiningum iðjuþjálfa.
10 góð ráð til að létta byrðina:
1. Látið barnið aldrei bera meira en 15% af eigin líkamsþyngd. Þetta þýðir að barn sem er 50 kg ætti ekki að bera þyngri tösku en 7,5 kg..
2. Setjið þyngstu hlutina sem næst baki barnsins og raðið vel í töskuna þannig að bækurnar séu síður á ferðinni.
3. Nota alltaf báðar axlarólarnar. EF aðeins önnur axlarólin er notuð getur barnið hallað til hliðar og þannig skekkt hrygginn og valdið þannig verkjum eða óþægindum.
4. Veljið bakpoka með vel fóðruðum axlarólum. Of mikill þrýstingur á axlir og háls getur valdið óþægindum og dofa.
5. Veljið rétta stærð af tösku fyrir barnið jafnhliða hversu mikið pláss skóladótið þarf.
6. Stillið axlarólarnar þannig að taskan passi vel að baki barnsins. Taskan ætti aldrei að ná lengra en 10 cm fyrir neðan mitti.
7. Muna að nota mittisólina, ef að hún er á skólatöskunni, en hún hjálpar við að dreifa þyngd töskunnar.
8. Skoðið hvað barnið er að bera í töskunni á milli skóla og heimilis. Verið viss um að það sé einungis það sem það þarf að nota þann daginn.
9. Ef skólataskan er of þung, íhugið að nota tösku á hjólum ef barnið samþykkir.
10. Þá daga sem skólataskan er yfirhlaðin getur barnið borið bækur eða hluti í fanginu – það minnkar álagið á bakið.
Oddrún Lilja Birgisdóttir, iðjuþjálfi
Höfundur greinar
Lilja Birgisdóttir, iðjuþjálfi
Allar færslur höfundar