Á tímum heimsfaraldurs er einkar vel viðeigandi að rifja upp gamalreynd ráð til að efla eigin vellíðan
Rannsóknir hafa sýnt að aukning á vellíðan geti átt þátt í betri heilsu og styrkingu á ónæmiskerfinu. Tekin hafa verið saman fimm einföld markmið sem geta gagnast til þess að efla vellíðan og lífsánægju.
Ræktaðu samskipti
Leiðir til þess að rækta samskipti við annað fólk eru fjölmargar og undir hverjum og einum komið að finna leiðir sem henta. Þetta er ekki síður mikilvægt nú á tímum þegar við þurfum að takmarka samskipti. Þá þarf að nota hugmyndaflugið og nýta tæknina til þess að búa til samverustundir og skapa minningar.
Hreyfðu þig
Alþekkt er að hreyfing hvetur líkamann til þess að auka framleiðslu á endorfini sem er oft kallað gleðihormónið. Mikilvægt er að stunda hreyfingu sem hentar líkamlegri getu og gjarnan í félagsskap við aðra en þó þannig að allra sóttvarna sé gætt. Það að hreyfa sig með öðrum eru jákvæð samskipti og þannig hægt að ná tveimur markmiðum í einu.
Taktu eftir
Njóttu augnabliksins, komdu auga á það jákvæða og taktu eftir því óvenjulega. Þetta er hluti af núvitund (mindfullness) sem getur breytt upplifun þinni af daglegu lífi á jákvæðan hátt og haft áhrif á það hvernig þú tekst á við áskoranir lífsins.
Haltu áfram að læra
Skoraðu á sjálfan þig og prufaðu eitthvað nýtt eða rifjaðu upp gamalt áhugamál sem vakti með þér gleði og ánægju. Það að læra eitthvað nýtt vekur áhuga, gleði og eflir sjálfstraustið
Gefðu af þér…
Að gera góðverk, brosa og þakka fyrir sig eru einfaldar leiðir sem auka vellíðan. Það að líta á sig og eigin hamingju sem hluta af stærri heild er gefandi og eflir tengsl við aðra.
Heimild: heilsuvera.is og landlaeknir.is
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar