Ein í “toppmálum”

Líf okkar skiptir máli, lífsgæðin einnig

Flestir langvinnir sjúkdómar valda ótímabundnum dauðsföllum. Þá er ég að tala um sjúkdóma eins og t.d. sykursýki 2, hjarta- og æðasjúkdóma, offitu og krabbamein (þær tegundir krabbameins sem tengjast lífsstíl). Það er ísköld staðreynd að þessir sjúkdómar þróast oft vegna heilsuhegðunar einstaklingsins; þeirra ákvarðana sem hann tekur og þeirra venja sem hann hefur tileinkað sér. Með því á ég t.d. við reykingar, óhóflega neyslu matar og áfengra drykkja, og of mikillar kyrrsetu. Þá spyr maður sig, hver ber ábyrgð? Er það einstaklingurinn? Já, vissulega, en einnig stjórnvöld. Málið snýst um aðgengi okkar að heilbrigðisþjónustu og að upplýsingum um heilsu og hvað er talið best hverju sinni, t.d. þegar kemur að forvörnum, eða um hvernig best má lifa með fötlun eða sjúkdómi, óháð kyni.

Heilsuhegðun skiptir máli, sem og meðferðarheldni, (þ.e., það að skilja það sem okkur er ráðlagt og þegar við förum eftir þeim ráðleggingum). Það er alltaf mikilvægt að leita sér ráða hjá fagaðila og fá upplýsingar sem eru okkur auðskiljanlegar. Rannsóknir hafa sýnt, að þegar einstaklingurinn nær að skilja þær ráðleggingar sem verið er að gefa honum, aukast líkurnar á því að hann framfylgi þeirri ráðgjöf um 50%, sem svo aftur þýðir auknar líkur á að einstaklingurinn nái árangri.

Í ráðgjöf minni vinn ég með alla þætti lífsstíls einstaklingsins, andleg og líkamleg einkenni hans. Til að geta leiðbeint faglega þarf ég því að þekkja sögu einstaklingsins. Milliverkun næringar á sum lyf og sjúkdóma getur valdið alvarlegum aukakvillum, sem svo aftur er hægt er að komast hjá, með aukinni þekkingu.

Fyrir mér eru það aukin lífsgæði að njóta þess að vera með börnunum mínum, fjölskyldu og vinum. Vera félagslega sterk og finna hamingjuna, alla vega flesta daga. Hinir dimmu dagar koma alltaf sama hvað. En þegar við tileinkum okkur skynsemi varðandi eigin heilsu og lífsstíl, gerum við leiðina léttari á þeim dögum þegar við þurfum að koma okkur út úr myrkrinu sem fyrst. Það er jú alltaf auðveldara að koma sér út úr myrkrinu þegar maður veit hvar hurðin er, ekki satt?

Það sama á við um rétta næringu. Um leið og við lærum inn á hvað er hollt og gott fyrir líkamann og hvaða næring hentar hverjum og einum, erum við, eins og einn vinur minn segir, í “toppmálum”. Besti ávinningurinn er samt sá, að við drögum úr líkunum á því að fá lífsstílstengda sjúkdóma. Tíminn skiptir þar máli, og svo ég vitni aftur í þennan góða vin minn – þá snýst þetta allt um millitíma, þ.e. ekki bíða, heldur vinna að því að bæta lífsstílinn, jafnt og þétt. Alls ekki gera ekki neitt! Það er verðugt verkefni að láta sér líða sem allra best meðan við dveljum hér á jörðinni. Þessi pistill minn er því áminning fyrir okkur sem höfum val – því miður eru ekki allir svo heppnir.

Veljum lífið og vellíðan.

 

Höfundur greinar