Heilsuplús

Heilsan er tvímælalaust það verðmætasta sem við eigum. Þeir sem verða fyrir áföllum af völdum sjúkdóma þekkja það betur en aðrir hversu mikilvægt er að heilsan sé góð. Samt sem áður sigla alltof margir í gegnum lífið án þess að hugsa nægjanlega um mataræði og hreyfingu og auka þannig hættu á því að fá ýmsa sjúkdóma.

Aldrei er minnt of oft á að með því að hugsa markvisst um það sem maður lætur ofan í sig, og með því að stunda jafnhliða líkamsrækt er hægt að minnka verulega hættuna t.d. á hjarta og æðasjúkdómum.

Heilsuefling er lífstíll en ekki átaksverkefni. Til þess að ná langtíma árangri í baráttunni við aukakílóin er best að breyta um lífstíl og skipuleggja neyslu og athafnir með það í huga hvað er best fyrir heilsuna. Þessu má auðveldlega líkja við muninn á því að taka til heima hjá sér einu sinni í mánuði en ganga svo um eins og svín þess á milli og þess að ganga vel um heimilið sitt alla daga.

Nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja breyta um lífstíl

Mataræði:
Hættið að kaupa skyndimat. Skipuleggið matseðilinn fyrirfram. Reynið að velja fjölbreyttan matseðil með grænmeti, fiski og kjöti. Farið einu sinni í viku og gerið stór innkaup, því með því losnið þið við að kaupa inn daglega og sparið ykkur bæði pening og tíma. Kaupið ávallt vörur með sem minnstu fituinnihaldi. Veljið ekki endilega það ódýrasta því oft eru það gæði og verð sem fylgjast að.

Vítamín:
Finnið ykkur það vítamín sem þið teljið að henti markmiðum ykkar sem best. Starfsfólk apóteka er sérþjálfað í því að veita ráðgjöf við val á vítamínum. Nýtið ykkur það og fáið fagmann til að velja vítamínið með ykkur.

Megrun:
Það er hægt að velja fjöldann allan af góðum megrunarvörum í dag sem hjálpa til við brennslu, eru vatnslosandi og minnka löngun í sykur. Það er hinsvegar nauðsynlegt að hreyfa sig vel og passa uppá að líkaminn fái öll þau næringarefni sem hann þarfnast á meðan á átakinu stendur. Góður árangur næst hinsvegar ekki til langs tíma nema að breytt sé um lífstíl og jafnvægi sé milli mataræðis og hreyfingu.

Líkamsrækt:
Hvort sem þú kýst að fara í skipulagða tíma í líkamsræktarstöð, ganga/hlaupa utandyra eða gera leikfimiæfingar heima þá er nauðsynlegt að gera þetta jafnt og þétt og skipuleggja tímann út frá því rétt eins og að borða og drekka.

Greinin birtist 1.október 2002

 

Höfundur greinar