Ein af grundvallarathöfnun mannsins er hreyfing og þurftu menn hér áður fyrr að leggja að baki langar vegalengdir til að draga björg í bú og ýmis verkefni daglegs lífs kröfðust líkamlegrar áreynslu. Hröð þróun síðustu ár og áratugi hefur orðið til þess að hreyfing er að verða hverfandi hluti af daglegu lífi fólks. Fólk notar í vaxandi mæli vélknúin farartæki. Atvinna og ýmis heimilisverk krefjast minni líkamlegrar áreynslu en áður og fólk ver frítíma sínum oftar í kyrrsetu en áður var, svo sem við tölvu eða sjónvarp. Til að viðhalda heilbrigði og vellíðan verður fólk að kappkosta að velja hreyfingu í stað kyrrsetu.
Hvað er hreyfing?
Hreyfing er almennt skilgreind sem hvers konar vinna beinagrindarvöðva sem eykur orkunotkun umfram það sem gerist í hvíld. Hreyfing er því yfirgripsmikið hugtak sem nær yfir nánast allar athafnir sem fela í sér hreyfingu með einum eða öðrum hætti, t.d. að ferðast á milli staða gangandi eða á hjóli, heimilisstörf, garðvinnu, ýmiss konar leiki, íþróttir og aðra skipulagða þjálfun. Hreyfingu má einnig skilgreina út frá fjórum meginþáttum: ákefð (hve erfitt), tíma (hve lengi), tíðni (hve oft), tegund (hvers konar hreyfing).
Það er mikilvægt að viðhalda líkamlegri og andlegri getu, þeir sem það gera eru betur settir á fullorðinsárum heldur en yngra kyrrsetufólk. Mörgum finnst leiðinlegt að hreyfa sig, telja sig í of slæmu formi til að byrja að hreyfa sig eða hreinlega finnst þeri ekki hafa tíma fyrir líkamsrækt. Nái fólk að komast yfir þessar hindranir að þá líður ekki á löngu uns það er farið njóta þess að hreyfa sig.
Helsti ávinningur
Hreyfing dregur úr streitu, kvíða og þunglyndi, hún eykur krafta heilans. Endorfínið sem við framleiðum við hreyfingu lætur fólki líða vel, gerir því auðveldara með einbeitingu, styrkir vöxt heilafruma og dregur úr áhrifum vegna öldrunar. Hreyfing bætir svefn, er orkugefandi og bætir sjálfstraustið svo að fólk er tilbúnara að takast á við athafnir daglegs lífs. Það er svolítið ríkt í mönnum að telja hreyfingu í vinnu næga hreyfingu en það er alls ekki svo. Hreyfing í vinnu er af allt öðrum toga heldur en hreyfing utan vinnu. Það er enginn að segja að fólk eigi að stökkva út í Stöð og kaupa sér líkamsræktarkort, taka svo daglega hörkupúl í 60 – 90 mín. Byrjaðu rólega, bara það að fara út í 20-30 mín göngu er góð byrjun og svo auka það hægt og rólega. Finndu líka eitthvað sem hentar því þá er miklu líklegra að maður haldi þetta út. Settu þér raunhæf markmið, eitthvað til langtíma. Dragðu vinina, finndu hóp eða eitthvað sem hvetur þig áfram því það er svo mikilvægt að hreyfa sig.
Höfundur greinar
Thelma Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar