Íslenskir ávaxtasafar

Hérlendis hófst framleiðsla appelsínusafa í neytendaumbúðum árið 1972. Síðan hefur þessi iðnaður aukist verulega og þykir í dag sjálfsagt að appelsínusafi og annar ávaxtasafi sé hluti af daglegri neyslu.

Hreinn ávaxtasafi úr þykkni  –  100% safi
Stærstur hluti þess safa, sem pakkað er hér á landi, er framleiddur úr ávaxtaþykkni sem er flutt hingað frosið í gámum eða tunnum.  Þykknið er framleitt með því að eima burt vatn úr ávaxtasafa til að minnka rúmmál og þar með flutningskostnað. Við framleiðslu hér er engu blandað saman við þykknið nema hinu ágæta íslenska vatni, í stað þess sem eimað var burt í upphafi, og ef til vill ávaxtakjöti.  Safinn er svo gerilsneyddur og pakkað í neytendaumbúðir.  Þessi safi er ýmist kælivara eða ekki.  Kælivaran hefur styttra geymsluþol, oft um 6 vikur, en safa sem ekki þarf að geyma í kæli, er pakkað við dauðhreinsaðar aðstæður til að tryggja hið langa geymsluþol sem er allt að 12 mánuðir.   Þessi sama aðferð er notuð við flestar gerðir ávaxtasafa, hvort sem hann er úr einum eða fleiri tegundum ávaxta.  Hreinn ávaxtasafi úr þykkni tryggir að engu er bætt í safann nema vatni og ef til vill ávaxtakjöti.  Hreinn safi er alltaf án rotvarnarefna og annarra aukefna.  Dæmi um slíka safa er Trópí, Brazzi og Ávöxtur.

Hreinn ávaxtasafi ekki úr þykkni  –  100% safi
Þessi  ávaxtasafi er eins lítið unninn og hægt er og þykir hvað bragðbestur.  Ávaxtasafinn hefur aldrei verið þykktur. Hann er fluttur hingað til lands við frostmark,  pakkað beint í neytendaumbúðir eftir gerilsneyðingu og er venjulega kælivara.  Þarna er engu blandað í safann.  Dæmi um þennan safa er Trópí nýkreistur og Sólarsafi.

Ávaxtanektar – ávaxtadrykkur með lágmark 50% ávaxtasafa
Nektar er framleiddur með því að bæta sykri/hunangi/sætuefnum og bragðefnum saman við ávaxtaþykkni og þynna með vatni að réttum styrkleika.  Í þennan drykk má bæta ýmsum efnum til að auka næringargildi hans, en þessa bætingu skal tilkynna Matvælastofnun.  Einnig má bæta í hann svokölluðum hjálparefnum til að stilla sýrustig eða bæta geymsluþol.  Þetta þarf að taka fram á umbúðum.  Þarna hafa framleiðendur séð tækifæri til að auka hollustu vörunnar með því að bæta við vítamínum, steinefnum eða andoxunarefnum.

Ávaxtadrykkur – minna en 50% magn ávaxtasafa
Hér er á ferðinni drykkur sem hefur svipaða eiginleika og nektar, nema að hér er ávaxtainnihald minna.  Dæmi um þennan drykk eru Svali og Frissi fríski.

Grein þessi er fengin af vef MNÍ og birtist með góðfúslegu leyfi

Höfundur greinar