Með fæðuna að vopni

Neysluvenjur okkar geta falið í sér náttúrulega vörn gegn krabbameinum

Þótt erfðavísar ráði talsverðu um heilbrigði okkar og heilsufar, benda nýlegar rannsóknir til þess að hægt sé að fyrirbyggja yfir helming krabbameina með heilbrigðum lífsháttum. Þar er mataræði talið hafa mest áhrif, næst á eftir reykingum. Er jafnvel talið að rekja megi tæplega þriðjung allra krabbameinstilvika beint til neysluvenja.

Ekki bara hvað heldur einnig hvernig

„Athyglisvert er að það skiptir ekki einungis máli hvað þú lætur ofan í þig, heldur einnig í hvaða formi,” segir Laufey Tryggvadóttir, faraldsfræðingur hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Vitað hefur verið um nokkurt skeið að ýmis fæðuefni, sér í lagi úr plönturíkinu, draga úr líkum á krabbameini. Má þar nefna sem dæmi fjörefnin C og E og beta karótín ásamt öðrum efnum úr flokki svonefndar andoxunarefna. „Rannsóknirnar leiða í ljós að þessi efni úr plöntum sem vernda okkur gegn myndun krabbameina, verka ekki, séu þau gefin í stórum skömmtum í töfluformi. Vísbendingar eru um að í slíku formi séu þau jafnvel skaðleg. Þetta þýðir jafnframt að við verðurm að neyta þessara efna í fæðunni sjálfri.” segir Laufey.

Getum ekki stytt okkur leið

Sem dæmi um krabbameinsvaldandi fæðu bendir Laufey á brenndan mat, t.d. brennt grillað kjöt. Þó eru fyrirbyggjandi áhrif ótal efna úr fæðunni mun mikilvægari. Fjölbreytni og hófsemi í fæðuvali er það sem mestu máli skiptir. „Lífsstíll gegnir í þessu sambandi líklega lykilhlutverki. Fjölbreytt fæða og næg hreyfing eru þættir sem líklegir eru til að stuðla að langlífi og lífsgæðum”, segir Laufey. “Þegar öll kurl eru komin grafar þýðir þetta að við getum ekki stytt okkur leið að bættri heilsu.”

Ekki má ofmeta þátt erfða

Krabbameinsrannsóknir eru afar flóknar og að sögn Laufeyjar er ekki unnt að fullyrða með vissu um orsakir meirihluta krabbameinstilvika. Orsakanna sé oftar en ekki að leita í flóknu samspili umhverfis- og erfðaþátta. Þáttur erfða hafi á hinn bóginn stundum verið verið ofmetinn. Krabbamein myndast vegna stökkbreytinga í frumum líkamans og í sumum tilvikum er um stökkbreytingar að ræða sem ganga í erfðir. „Athyglisverðar rannsóknir á nýgengi krabbameina í eineggja og tvíeggja tvíburum sýna að þótt erfðir hafi áhrif eru þau engan veginn afgerandi. Þetta á einnig við um krabbamein á borð við ristilkrabbamein og brjóstakrabbamein, þar sem þekktar eru arfgengar stökkbreytingar sem auka mjög áhættuna. Fleira þarf að koma til en hið stökkbreytta gen svo að úr verði krabbamein og þar eru umhverfisþættirnir afgerandi.”

Gömul sannindi og ný

Af þessum umhverfisþáttum bendir flest til þess að neysluvenjur ráði mestu, að reykingum undanskildum, en fátt slær tóbaksreyknum við hvað krabbameinsvaldandi efni varðar. Af öðrum áhættuþáttum má nefna geislun, veiru- og bakteríusýkingar og útfjólubláa geisla sólar. „Faraldsfræðilegar rannsóknir á áhrifum mataræðis eru sérstaklega erfiðar. Hins vegar benda niðurstöður þeirra og einnig dýratilrauna til þess að mataræðið skipti miklu máli”, segir Laufey, um leið og hún blaðar í nýlegri samantekt um orsakir krabbameina á Norðurlöndum. „Flestir geta væntanlega tekið undir að þessi sannindi eru bæði gömul og ný. Það sem við látum ofan í okkur hlýtur að varða líkamann og starfsumhverfi hans miklu. Því er farsælast að ofbjóða líkamanum í engu, en nýta okkur þá vernd sem náttúran býður upp á”.

Hver er sinnar gæfu smiður?

Því hefur t.a.m. verið haldið fram að „patent-lausnir” á borð við stóra skammta af andoxunarefnum í töfluformi hafi ekki tilætluð áhrif, þar sem líkaminn sé einfaldlega ekki útbúinn til þess að taka við þeim í þessu formi eða magni. „Við getum tekið sem dæmi andoxunarefnið beta karótín, sem t.d. finnst í miklu magni í gulrótum. Hátt magn af beta karótíni í blóði helst gjarnan í hendur við lága krabbameinstíðni. Einnig er lækkuð krabbameinstíðni hjá hópum fólks sem fær mikið af þessu efni úr fæðunni. Því er sennilegt að þetta efni feli í sér virka krabbameinsvörn.” Ein hugsanleg skýring á því að töflur skila ekki árangri gæti verið að til eru margar náttúrulegar gerðir af karótínum og með því að taka ríkulega inn eina gerð í töfluformi, sé e.t.v. verið að draga úr virkni annarra mikilvægra gerða af karótíni. „Í plöntum eru hundruði efna og svo virðist sem heildin sem slík skipti máli. Það dugar ekki að einangra þessi efni og borða þau ein og sér.”

Ráð gegn krabbameini

  • Fjölbreytt fæða með áherslu á grænmeti og ávexti
  • Trefjarík fæða
  • Forðast mjög hreinsaða fæðu eins og hvítan sykur
  • Kjöt og fita í hófi
  • Orkurík fæða í hófi
  • Ekki borða brenndan mat
  • Sleppa reykingingum algjörlega
  • Neyta áfengis í hófi
  • Stunda líkamsrækt

Brasilíuhneturnar og skrautlega grænmetið…

Í grænmeti og ávöxtum finnast hundruði efna sem eru líkleg til að vernda gegn krabbameinum. Ekki er vitað hver eru mikilvægust og því er best að borða sem allra fjölbreyttasta fæðu og rannsóknir benda til þess að einmitt sjálf fjölbreytnin sé mikilvæg. Hins vega er hægt að nefna nokkur efni sem eru betur þekkt en önnur, t.d. andoxunarefnin. Þau eru flokkur efna sem eiga það sameiginlegt að draga úr myndun svokallaðra sindurefna (e. Free radicals). Sindurefni eru talin eiga þátt í framgangi ýmissa alvarlegra sjúkdóma, til að mynda krabbameins og hjarta- og æðasjúkdóma. Undir flokk andoxunarefna falla C- og E- vítamín, Beta-karótín, lýkópen og Selen. Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu innihalda hinar ýmsu tegundir grænmetis og ávaxta gjarnan andoxunarefni. Þumalputtareglan er sú að því litríkara og dekkra sem grænmetið og ávextirnir eru því meiri líkur eru á að í þeim sé ríkulegt magn andoxunarefna.

C-Vítamín
Sítrusávextir
Ber
Melónur
Tómatar
Kartöflur
Spínat, og annað grænt blaðkál
Kiwi
JarðaberBeta-karótín
GulræturLýkópen
Tómatar
Vatnsmelónur
E-Vítamín
Grænmetis- og kornolíur
Soyabaunaolía
Safflowerolía
Sólblómaolía
Hnetur
Ómeðhöndlað heilhveitikorn
Hveitikím
Lýsi
BlaðgrænmetiSelen
Kjöt
Fiskur
Kornmeti
Brasilíuhnetur

Viðtalið við Laufey Tryggvadóttur, faraldsfræðing Krabbameinsfélagsins var tekið af Helgu Guðrúnu Jónasdóttur og birtist 24.júlí 2001

Höfundur greinar