Megrunarlausi dagurinn

Þann 6.maí næstkomandi verður megrunarlausi dagurinn (international no diet day) haldinn hátíðlegur um allan heim í fjórtánda sinn.  Nú í ár er hann í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur á Íslandi.  Markmiðið með þessum degi er að vinna gegn fordómum í garð þeirra sem eru feitir, átröskunarsjúkdómum og megrun.  Margir leggja það að jöfnu að vera grannur og heilbrigður og svo feitur og óheilbrigður. En ytra útlit okkar og holdafar segir ekkert til um hversu hraust við erum.  Þykk kona sem borðar almennt holla fæðu og fer í göngu 4-5 sinnum í viku er miklu heilbrigðari heldur en granna konan sem reykir pakka á dag, drekkur mikið af kaffi  og gosdrykkjum og hreyfir sig ekkert að staðaldri.   Þörf er á hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni.  Það að vera feitur þýðir ekki að við lifum eingöngu á skyndifæði og hreyfum okkur ekkert.  Við erum öll ólík í laginu, sem betur fer.  Á meðan við höfum hollustuna í fyrirrúmi, borðum holla fæðu og hreyfum okkur þá erum við í góðum málum. Horfðu á heildarmyndina en ekki leggjast í þunglyndi þrátt fyrir að kílóin hrynji ekki af á fyrstu vikum breytts lífernis.  Góðir hlutir gerast hægt.   Megrun er ekki rétta leiðin.

  1. Megrun virkar ekki.  Jafnvel þótt þú léttist, muntu mjög líklega þyngjast aftur og jafnvel um fleiri kíló en þú misstir
  2. Megrunarkúrar eru dýrir.  Sparaðu frekar peningana sem þú eyðir í megrunarvörur og keyptu þér frekar föt sem bæta útlitið strax.
  3. Megrunarkúrar eru leiðinlegir.  Þegar á þeim stendur hugsar þú og talar um lítið annað en mat.  Lífið snýst um meira en það, ekki satt?
  4. Megrunarkúrar bæta ekki heilsu þína.  Það eru meiri líkur á að þér líði verr en betur líkamlega.  Hungurtilfinningin er ömurleg tilfinning.
  5. Megrun getur leitt til átröskunarsjúkdóma eins og anorexiu og bulemíu.
  6. Megrunar getur gert okkur fráhverf mat.  Matur er okkur lífsnauðsynlegur og það að neita okkur um hann getur rænt okkur allri ánægju þess að borða.
  7. Megrun rænir þig orku.  Ef þú vilt lifa heilbrigðu og aktívu lífi þarftu á góðri næringu að halda.
  8. Megrun gerir þig ekki fallega(n).  Hverfandi líkur eru á að þú munir nokkurn tímann líta út eins og módel.  Þú þarft ekki að vera grönn(grannur) til að líta sem best út.

Aðalatriðið er: Sættu þig við  líkama þinn og lærðu að elska sjálfa(n) þig eins og þú ert.  Með því færðu betra sjálfstraust og betri líðan sem endist þér út lífið. Ef þú borðar holla fæðu og hreyfir þig, þá kemur heilbrigðara útlit af sjálfu sér.  En mundu að það tekur tíma og þú hefur allan tímann í heiminum. Þetta er líkaminn sem þér var gefinn.  Farðu vel með hann.   

Höfundur greinar