Það er ekki oft sem færi gefst á að segja frá einhverju jákvæðu þegar krabbamein er annars vegar. Þó eru til undantekningar eins og kveikjan að þessari grein sannar. Á fjörur okkar rak grein um samband milli reglubundinnar líkamsræktar og minni hættu á brjóstakrabbameini. Við rekjum hér stuttlega efni greinarinnar og tveggja eldri greina um svipað efni og látum fylgja með nokkra fróðleiksmola um brjóstakrabbamein.
„Niðurstaðan varð sú að öll hreyfing skili sér í minni líkum á brjóstakrabbameini síðar á ævinni og að því meiri sem hreyfingin er því minni líkur séu á að fá brjóstakrabbamein.“ |
Ár hvert greinast að meðaltali um 110 íslenskar konur með brjóstakrabbamein, þar af fimm til tíu sem eru yngri en fjörutíu ára og tuttugu til þrjátíu alls undir fimmtugu. Með fræðslu, læknisskoðunum og brjóstamyndatökum er reynt að greina sjúkdóminn fyrr en ella og bæta þar með lífslíkur. En forvarnir geta einnig miðað að því að koma í veg fyrir að sjúkdómur myndist. Til þess þarf að þekkja orsakir sjúkdómsins. Hér er þekking í brotum sem á eftir að raða saman. Áhættuþættir brjóstakrabbameins tengjast flestir frjósemis- og blæðingaskeiði konunnar. Lengt frjósemisskeið, barnleysi eða seinkun barneigna, minni brjóstagjöf og notkun hormóna er allt talið auka líkur á brjóstakrabbameini. En þessir þættir eru jafnframt staðreyndir í nútímaþjóðfélagi sem konur geta litlu um ráðið. Af öðrum áhættuþáttum má nefna ættgengi, neyslu dýrafitu, áfengisnotkun og jafnvel reykingar. Einnig beinast augu manna að hugsanlegu verndandi hlutverki A-vítamíns, C-vítamíns, D-vítamíns og E-vítamíns, trefjaríkrar fæðu og fleiri fæðuefna.
Umhverfi okkar og lífshættir hafa hin síðari ár verið ofarlega á blaði í umræðunni um orsakir brjóstakrabbameins. Tíðni brjóstakrabbameins er mjög mismunandi eftir löndum og tróna Bandaríkin efst og Japan neðst en Norðurlöndin eru þar mitt á milli. Þegar kona flytur í land þar sem tíðni brjóstakrabbameins er hærri en í heimalandi hennar verða dætur hennar í meiri hættu að fá krabbameinið og með tímanum verður áhættan svipuð og hjá öðrum sem þar búa. Ástæðan er líklega sú að innflytjandinn verður fyrir sömu umhverfisáhrifum, tileinkar sér nýja lífshætti og breytt mataræði. Sem dæmi má nefna að vitað er að hismi og hrat sem við skiljum frá fæðu okkar hér á vesturlöndum flýtir fyrir útskilnaði kvenhormóna úr líkamanum og minnkar þannig magn þeirra í blóði. Síðustu ár er farið að tala um hreyfingarleysi sem sjálfstæðan áhættuþátt brjóstakrabbameins. Talið er að bæði fæða og hreyfing hafi veruleg áhrif á hormónabúskapinn.
Sú vitneskja hefur lengi verið fyrir hendi að brjóstakrabbamein er sjaldgæfara hjá miklum íþróttakonum en öðrum konum. En nú eru einnig farnar að birtast greinar þess efnis að „hófleg“ íþróttaiðkun geti verndað gegn myndun brjóstakrabbameins síðar á ævinni.
Í september 1994 birtist áhugaverð grein í tímaritinu The Journal of the National Cancer Institute. Þar segir frá aftursærri (retrospective) bandarískri rannsókn á stórum hópi ungra, hvítra kvenna í Los Angeles sem greindust með brjóstakrabbamein á árunum 1983-89. Fundinn var samanburðarhópur og voru 545 konur í hvorum hópi. Reynt var að fá yfirlit um hreyfingu og líkamsrækt þessara kvenna. Niðurstöðurnar sem fengust úr þessari rannsókn benda til að með reglubundinni og aukinni hreyfingu geti konur dregið verulega úr líkum á að fá brjóstakrabbamein innan við fertugt.
Spurt var um allar hugsanlegar gerðir hreyfingar og líkamsræktar: Sund, fimleika, frjálsar íþróttir, hópíþróttir, leikfimi, tennis, veggjatennis, hlaup, skokk, göngur og dans. Reynt var að fá upplýsingar um alla þá líkamsrækt sem konurnar höfðu stundað frá bernsku og þar til rannsókn hófst. Niðurstöður voru skoðaðar í tengslum við þekkta áhættuþætti brjóstakrabbameins. Í ljós kom að líkur á brjóstakrabbameini stigminnkuðu með aukinni hreyfingu, óháð öðrum áhættuþáttum. Munurinn varð meiri og marktækari hjá þeim konum sem höfðu eignast barn eða börn.
Niðurstaðan varð sú að öll hreyfing skili sér í minni líkum á brjóstakrabbameini síðar á ævinni og að því meiri sem hreyfingin er því minni líkur séu á að fá brjóstakrabbamein. Þegar líkamsræktin náði fjórum klukkustundum á viku eða meira höfðu líkurnar á að fá brjóstakrabbamein minnkað um helming.
Á undanförnum árum hafa birst nokkrar aðrar greinar um líkamsrækt og líkur á myndun brjóstakrabbameins. Flestar greinanna hafa sýnt að líkamsrækt minnkar hættuna á brjóstakrabbameini. Árið 1985 birtist markverð grein sem tók til rúmlega fimm þúsund kvenna sem stundað höfðu nám í framhaldsskólum og háskólum í Bandaríkjunum. Helmingur þeirra hafði stundað miklar íþróttir í skóla, verið í keppnisliðum og æft reglulega öll skólaárin. Í ljós kom að 24 íþróttakonur höfðu fengið brjóstakrabbamein en 45 úr hópnum sem litlar eða engar íþróttir hafði stundað. Þetta eru ekki háar tölur en segja svipaða sögu og sögð var hér að framan. Sú fækkun tilfella sem fram kemur við íþróttaiðkun í þessari rannsókn er aðallega vegna fækkunar brjóstakrabbameinstilfella í konum eldri en fertugt.
Til að gæta hlutlægni segjum við einnig frá rannsókn sem birtist árið 1994 en niðurstöðurnar eru túlkaðar á þann hátt að hreyfing minnkaði ekki líkur á brjóstakrabbameini heldur jafnvel þvert á móti. Í þessari rannsókn sem var framsæ (prospective), tóku þátt rúmlega tvö þúsund konur. Þessar konur höfðu 25 árum áður, þá á aldrinum 35-65 ára, verið spurðar um hreyfingu á tveggja ára tímabili. Tuttugu og fimm árum síðar höfðu 170 þeirra fengið brjóstakrabbamein. Fáar kvennana hreyfðu sig mikið og þegar betur var að gáð kom í ljós að líkamsrækt þessi tvö ár gaf ekki góðar upplýsingar um hreyfingu hverrar konu þann aldarfjórðung sem síðan var liðinn. Niðurstöðurnar verða því ekki til að draga úr gildi þeirra tveggja greina sem áður eru nefndar.
Þó að niðurstöðurnar sem hér hafa verið raktar séu einungis vísbending er vert að leiða hugann að því að hér er möguleiki að gera eitthvað sjálfur til að draga úr líkunum á því að fá alvarlegan sjúkdóm sem verður stöðugt algengari. Tíunda hver íslensk kona fær brjóstakrabbamein einhvern tímann á ævinni. Algengast er að brjóstakrabbamein greinist í konum á aldrinum 40-70 ára. Tilfellum meðal ungra kvenna hefur fjölgað á undanförnum árum. Einnig liggur þetta krabbamein í ættum og þá sérstaklega meðal ungra kvenna.
Hvernig veitir líkamsrækt vernd gegn brjóstakrabbameini? Aukin hreyfing minnkar magn kvenhormóna í líkamanum. Öll hreyfing getur haft áhrif í þá átt að stytta seinni hluti tíðahringsins og lengja hvern tíðarhring en hvoru tveggja minnkar heildarmagn kvenhormóna í líkamanum. Mjög mikil hreyfing getur valdið tíðaleysi. Á unglingsárum geta íþróttir seinkað því að blæðingar hefjist og verði reglulegar. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að ungur aldur við upphaf blæðinga er mjög sterkur áhættuþáttur fyrir brjóstakrabbamein. Líkur á brjóstakrabbameini minnka um 10% fyrir hvert ár sem blæðingum seinkar. Þegar haft er í huga að æxlishnútur á sér langa sögu, oft áratuga langa, kemur ekki á óvart að lífshættir okkar sem unglinga og meðan við erum ungar konur geti skipt máli fyrir þennan sjúkdóm. Hreyfing er einnig talin geta haft jákvæð áhrif á ónæm iskerfið og hindra frekar æxlismyndun og seinka vexti þeirra krabbameina sem þegar hafa myndast. Of mikil þjálfun er þó talin geta verið líkamanum skaðleg.
Við lifum á tímum vaxandi neyslu og minnkandi hreyfingar allt frá bernsku. Hér hafa verið raktar niðurstöður nýlegra greina sem gefa vísbendingar um, að til viðbótar við alla þá sjúkdóma sem við vitum að tengist þessum lífsmáta geti hann einnig stuðlað að aukinni hættu á brjóstakrabbameini og reyndar fleiri krabbameinum sem ekki hafa verið nefnd í þessari grein. Í greininni sem var kveikjan að þessum skrifum kemur einnig fram að það er ekki of seint að byrja þó að unglingsárin séu liðin án mikillar hreyfingar. Það ætti að verða mörgum konum hvatning til að fara að stunda líkamsrækt.
Helstu heimildir:1. Leslie Bernstein og fl.: Physical exercise and reduced risk of breast cancer in young women. Journal of the National Cancer Institute 1994; 86: 1443-1448.
2. R. E. Frisch og fl.: Lower prevalence of breast cancer and cancers of the reproductive system among former college athletes compared to non-athletes. Br. J. Cancer 1985; 52: 885-891.
3. Joanne F. Dorgan og fl.: Physical activity and risk of breast cancer in the Framingham heart study. American Journal of Epidemiology 1994; 139: 7.
Grein þessi birtist 1.júní 1995 í Heilbrigðistímamálum, tímariti Krabbameinsfélagsins
Höfundar greinar
Ingibjörg Guðmundsdóttir, læknir
Allar færslur höfundar ,Kristín Sigurðardóttir, læknir
Allar færslur höfundar