Taktu ábyrgð

Hvað er málið?

Umræðan í fjölmiðlum virðist oft á tíðum uppfull af greinum og fróðleik um offitu, ofþungt fólk, hollara mataræði og og betri hreyfingu en það er ástæða fyrir því. Við þurfum að vakna til meðvitundar og átta okkur á því að um raunverulegt vandamál er að ræða og ef við gerum ekkert verður næsta kynslóð í ennþá meiri vandræðum, feitari og í lélegra formi. Fólki sem telst vera í offitu fjölgar stöðugt og við Íslendingar erum farin að skera okkur úr miðað við hin norðurlöndin og nálgumst Bandaríkin óðfluga.

En hvers vegna er ekki bara í lagi að vera of feitur?

Margir eru þungir en við hestaheilsu og ekki ætlum við að steypa alla í sama mót. Það þarf jú að taka með í reikninginn að það skiptir máli hvað er á bak við þyngdina. Eru þetta kíló sem eru samsett af vöðvum eða fitu? Og þar komum við að kjarnanum. Ef við erum of þung vegna þess að við erum of feit erum við útsettari fyrir alvarlegum sjúkdómum og tíðni þeirra fer vaxandi eins og til dæmis sykursýki að ekki sé  talað um stoðkerfisvandamál og aðra kvilla.

Lífstíllinn

Það er vissulega allt í lagi að burðast með nokkur aukakíló svo lengi sem við erum að gefa því gaum að hreyfa okkur, borða hollt og hirða almennt um okkur en það þarf að gæta að því að þeim fjölgi ekki ótakmarkað og það er enginn sem passar það nema við sjálf. Rannsóknir styðja það að við séum almennt að borða meira en áður og að maturinn sem við borðum sé hitaeiningaríkari á sama tíma og við hreyfum okkur minna. Skyndilausnirnar sem við freistumst til þess að nota eru oftast nær ávísun á frekari vandræði vegna þess að þó að kílóunum fækki rétt á meðan átakið varir þá koma þau fílefld til baka og gjarnan með aukinn liðstyrk.

Okkar eigin ábyrgð

Þess vegna þurfum við að axla ábyrgð, ábyrgðina sem við berum á okkur sjálfum og taka skynsamar ákvarðanir sem hæfa okkur, okkar lífsstíl og líkama. Það gerir það enginn fyrir okkur að gæta að mataræðinu okkar, passa að við borðum ekki of mikið og að við kaupum ekki eintóma vitleysu. Það er algerlega í okkar eigin höndum að ákveða að fara út og hreyfa okkur. Þetta er okkar líf, okkar líkami og við sjálf berum ábyrgð á því að halda honum eins heilbrigðum og hraustum og mögulegt er.

Höfundur greinar