Berklar

Berklar er alvarlegur smitsjúkdómur, sem orsakast af bakteríunni Mycobacterium tuberculosisMycobacterium bovis, sem veldur berklum í nautgripum, getur einnig orsakað sýkingar í mönnum. Bakterían berst manna á milli með loftbornu smiti um öndunarfæri, þaðan berst hún um líkamann með blóðrásinni og getur hreiðrað um sig í ýmsum líffærum. Sýking í lungum er algengust en bakterían getur einnig lagst á önnur líffæri eins og nýru, miðtaugakerfi og bein. Talið er að 10% þeirra sem smitast fái sjúkdóm með virkri berklasýkingu á fyrstu tveimur árunum eftir smit. Þeir sem hafa smitast en fá ekki einkenni um sjúkdóm eru með leynda berkla. Við leynda berkla er bakterían til staðar í líkamanum en veldur ekki sýkingu og viðkomandi er ekki smitandi.

Hægt er að bera berklabakteríuna alla ævi án þess að sjúkdómur komi fram, þar sem heilbrigt ónæmiskerfi getur haldið smitinu í skefjum. Við veiklað ónæmiskerfi geta bakteríurnar fjölgað sér og sjúkdómurinn tekið sig upp. Við leynda berkla er gefin meðferð til að koma í veg fyrir útbreiðslu bakteríunnar í líkamanum síðar.

Efnisyfirlit

Faraldsfræði

Berklar bárust líklega til Íslands strax á landnámsöld, en það er þó ekki fyrr en um aldamótin 1900 að þeir urðu mjög útbreiddir hér á landi. Árlega dóu um 150-200 manns á tímabilinu 1912–1920. Í kringum 1950 dró mjög úr berklum með tilkomu berklalyfja. Á síðustu árum hafa greinst hér á landi milli 10–20 berklatilfelli á ári.

Um miðjan níunda áratug síðustu aldar jókst tíðni berkla á ný og má það einkum rekja til útbreiðslu HIV-veirunnar og áhrif alnæmisfaraldursins á tíðni berkla í fátækum löndum og þar með á heimsvísu.

HIV-smitaðir eru í meiri hættu á að fá virka berkla. HIV-veiran veikir ónæmiskerfið og kemur þannig í veg fyrir að það geti unnið á berklabakteríunni. Samhliða sýking af völdum berkla og HIV-veirunnar er því lífshættuleg.

Berklabakterían er mjög útbreidd í heiminum og er talið að um 1/3 jarðarbúa séu með leynda berkla sem þýðir að þeir eru ekki smitandi en við ónæmisbælingu getur sýkingin orðið virk.

Smitleiðir og meðgöngutími

Berklasmit berst langoftast með úða og dropum sem verða til við hósta og hnerra þeirra sem eru með berklabakteríur í hráka. Berklar í raddböndum, sem eru frekar sjaldséðir eru hvað mest smitandi. Þrátt fyrir að berklabakterían sé smitandi, berst hún ekki jafnauðveldlega og t.d. inflúensu- og mislingaveirur. Hún er líklegri til að smitast milli einstaklinga sem eru í nánum samskiptum eins og fjölskyldumeðlima og vinnufélaga, auk þess sem smit í þröngsetnum fangelsum hafa verið vandamál.

Einkenni

Helstu einkenni berklasýkingar eru hósti, þyngdartap, slappleiki, hiti, nætursviti, kuldahrollur og lystarleysi.
Berklabakterían leggst helst á lungu og veldur einkennum eins og langvarandi hósta með eða án blóðugs uppgangs, brjóstverkjum og/eða verkjum við öndun og hósta.
Berklar geta einnig lagst á aðra líkamshluta eins og nýru, mænu og bein. Einkenni sýkingar fara eftir staðsetningu í líkamanum. Sýking í mænu veldur bakverkjum, sýking í nýrum veldur blóði í þvagi og sýking í beinum veldur verkjum í stoðkerfi.

Greining

Greining á berklum er margþætt og byggir á sjúkdómsmynd, húðprófi (PPD) eða blóðprufu sem mælir frumubundið ónæmi gegn berklabakteríum. Best er að fá hrákasýni/önnur sýni frá neðri öndunarfærum eða frá öðrum sýkingarstöðum í smásjárskoðun og berklaræktun en einnig er hægt að gera PCR (greina erfðaefni berklabakteríunnar). Myndgreining er einnig mikilvæg rannsóknaraðferð við greiningu á berklum.

Meðferð

Til að uppræta smitandi berkla þurfa einstaklingar að fara á samfellda fjöllyfjameðferð í a.m.k. sex mánuði til að koma í veg fyrir að bakteríurnar myndi ónæmi fyrir lyfjunum. Við hefðbundna meðferð eru fjögur lyf gefin fyrstu tvo mánuðina og svo tvö lyf í fjóra mánuði. Ef sjúklingurinn er meðferðarheldinn og tekur lyfin eins og fyrir hann er lagt, þá er árangur meðferðar mjög góður. Einstaklingur sem hefur verið tvær vikur á réttri meðferð vegna berklasýkingar á ekki að vera smitandi lengur. Við fjölónæma berkla er meðferðin lengri og flóknari, velja þarf lyf eftir næmi bakteríunnar og ef mögulegt er, vera með a.m.k. fjögur virk lyf til meðferðar.
Við leynda berkla er gefin meðferð til að koma í veg fyrir útbreiðslu bakteríunnar í líkamanum síðar. Hefðbundin lágmarksmeðferð við leyndum berklum er eitt berklalyf í a.m.k. sex mánuði.

Forvarnir

Forgangsatriði berklavarna er góð heilbrigðisþjónusta sem greinir skjótt og meðhöndlar fljótt til að tilfellin nái ekki að smita út frá sér. Leitað er í umhverfi smitbera til að unnt sé að veita þeim sem hafa smitast varnandi meðferð.

Hin síðari ár er einkum tvennt sem hefur áhrif á útbreiðslu berkla. Annars vegar er það HIV-smit og alnæmi sem er algengt í löndum þar sem berklar eru landlægir en HIV-smit eykur líkur á að berklasmitaður einstaklingur fái berkla að minnsta kosti hundraðfalt. Hins vegar hafa myndast fjölónæmir stofnar af berklabakteríunni, það eru stofnar sem hafa komið sér upp ónæmi fyrir sýklalyfjum þannig að lyfin vinna ekki á sjúkdómnum.

Fjölónæmar berklabakteríur eru vaxandi ógn á heimsvísu. Ekki hafa komið fram ný berklalyf um nokkurt skeið, og meðferðarhorfur eru mun lakari við sýkingar af völdum fjölónæmra berkla, auk þess sem meðferðin er margfalt dýrari. Til að koma í veg fyrir myndun ónæmis, er mikilvægt að læknar og sjúklingar fylgi lágmarkskröfum um berklameðferð.

Bólusetning

Bóluefni (BCG) kom á markað um miðja 20. öldina en ekki hefur þótt ástæða til að taka bólusetningu gegn berklum inn í almennar bólusetningar hér á landi.

Berklar er tilkynningarskyldur sjúkdómur.

 

Tilkynningarskylda – skráningarskylda

Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af berklum með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

Sjá nánar:
http://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/tuberculosis/basics/definition/CON-20021761 
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=2773 

Greinin er fengin af vef Landlæknis og birtist með góðfúslegu leyfi þeirra.

Uppfært 24.11.2016

 

Höfundur greinar