Bleikjuhreistur

Hvað er pityriasis rosea?

Þetta er algengur húðsjúkdómur með einkennandi útbrotum á húð. Sjúkdómurinnn er algengastur hjá ungu fólki og kemur oftar fram hjá konum en körlum. Orsökin er ekki fullþekkt en talin stafa af völdum veiru. Sjúkdómurinn er ekki smitandi og gengur yfir af sjálfu sér.  Sjúkdómurinn þekkist líka undir nafninu Rósarhnappur.

Hver eru einkennin?

Pityriasis rosea byrjar oftast með bleikum egglaga flekk sem oft er kallaður „móðurflekkur”. Hann er venjulega 3-6 cm að stærð og kemur oftast á bak eða brjóst. Á næstu 1-2 vikum eftir að móðurflekkurinn myndast fylgja smærri blettir af sama toga á bol, háls og handleggi. Útbrotin eru vel afmörkuð, aðeins upphleypt og í miðju þeirra verður húðin stundum þurr og hreisturkennd. Þessi útbrot hverfa oftast á 4-8 vikum, geta þó varað allt upp í 12 vikur. Þau geta orðið ljósbrún áður en þau hverfa alveg en skilja ekki eftir sig varanleg ummerki á húðinni. Kláði í húð getur komið fram samfara útbrotunum. Sjúklingur kennir sér venjulega ekki annars meins en þreyta og höfuðverkur geta komið fram. Heit böð og líkamleg áreynsla geta aukið útbrotin.

Hvernig er hægt að varast sjúkdóminn?

Engar forvarnir eru þekktar gegn sjúkdóminum.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Saga og skoðun nægir venjulega til að greina sjúkdóminn. Vegna þess hve sjúkómurinn líkist öðrum sjúkdómum sérstaklega ef hann kemur ekki fram í sínu dæmigerðasta formi er nauðsynlegt að útiloka aðra sjúkdóma svo sem sveppasýkingu. Hægt er að taka sýni úr húð til greiningar sjúkdómsins.

Meðferðin?

Ekki er þörf á meðferð við vægum sjúkdómseinkennum. Varast skyldi að klóra eða skrúbba húðina, en nota rakakrem til að mýkja hana og nota má krem sem draga úr kláða. Mild sterakrem má nota til að minnka bólgu og andhistamín lyf í töfluformi (ofnæmislyf) er hægt að taka við miklum kláða.

Grein þessi birtist fyrst 14.maí 2001

Höfundur greinar